27.9.2017

Samkomulag flokka um NPA mál

Í tengslum við samkomulag um lok þingstarfa undirrituðu formenn flokkanna yfirlýsingu um feril fyrir frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Markmiðið með yfirlýsingunni var að eyða þeirri óvissu sem hefur verið um þjónustu við fatlað fólk, sérstaklega notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

Á 146. löggjafarþingi lagði félags- og jafnréttismálaráðherra fram frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir (438. mál) og frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (439. mál). Málunum var vísað til velferðarnefndar 2. maí 2017. Velferðarnefnd lagði töluverða vinnu í málin, tók á móti gestum og vann drög að nefndarálitum ásamt því að fjalla nokkrum sinnum um málin á fundum. Svo fór þó að ekki náðist að afgreiða málin fyrir þingfrestun í byrjun júní.

Á þingmálaskrá félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir 147. löggjafarþing eru þessi mál efst á blaði og átti að leggja þau fram strax í september. Nú er ljóst að ekki næst að afgreiða þau þar sem boðað hefur verið til kosninga í október og nýhafið 147. löggjafarþing verður því stutt. Með þessari yfirlýsingu er því gerð tillaga um feril málanna fram að áramótum.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að ráðuneytið nýti næstu vikur til samráðs við samtök notenda og sveitarfélaga með áherslu á að koma með raunhæfar lausnir sem sátt er um og fullvinna frumvörpin til að tryggja framgang þeirra á næsta þingi. Fullunnin frumvörp verði tilbúin í síðasta lagi í lok október nk.

Hvað varðar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir verður að sjá til þess að efni ákvæðis til bráðabirgða IV í gildandi lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, verði lögfest varanlega. Í ljósi þess að tilraunaverkefninu sem framkvæmd ákvæðisins byggist á er að ljúka og þar sem afar mikilvægt er að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og stöðu þeirra einstaklinga sem hafa haft samninga um þá þjónustu og þeirra sem hafa hug á að sækja um slíka þjónustu er lagt til að ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð í 11. gr. og ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpinu verði felld inn í gildandi lög um málefni fatlaðs fólks. Gert er ráð fyrir að þær greinar verði síðan í lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir þegar frumvarp um þau hefur verið afgreitt.

Við vinnslu frumvarpanna í vor kom fram hjá ráðuneytinu að setningu reglugerða yrði lokið fyrir 31. október, miðað við að lögin hefðu tekið gildi þá. Mikilvægt er að sú tímasetning standist svo að sveitarfélögin geti unnið eftir samningum. Formaður velferðarnefndar hefur rýnt í umsagnir og telur að reglugerðirnar taki flestar á þeim óvissuþáttum sem fram hafa komið í umsögnum um málið, m.a. um réttindamál starfsmanna, starfsleyfi, yfirstjórn og eftirlit, búsetuúrræði, forgangsröðun og handbók um framkvæmd NPA. Reglugerðarskyldur finnast í 4., 7., 9., 11., 17., 21. og 34. gr. frumvarpsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa lagt áherslu á að hækka kostnaðarhlutdeild ríkisins í NPA-samningum. Þá hafa þessir aðilar bent á að fjármagn verði að koma frá heilbrigðisþjónustu inn í NPA-samninga fyrir langveika og sérstaklega þurfi að horfa til sjúklinga í öndunarvél. Mikilvægt er að ráðuneytið finni lausn á þessum atriðum og rétt er í því sambandi að lögbinda í tengslum við afgreiðslu frumvarpanna ákvæði um samráðshóp um kostnað.

Hvað varðar frumvarp til laga um breytingu lögum um á félagsþjónustu sveitarfélaga eru stærstu ágreiningsmálin stuðningsþjónusta, húsnæðismál og akstur. Í b-lið 5. gr. frumvarpsins sem snýst um skyldur sveitarfélaga segir að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðuneytið verður því að vinna að slíkum leiðbeiningum til að taka á þessum ágreiningsmálum.

Margar athugasemdir hafa borist í tengslum við langveik börn. Ráðuneytið verður að vinna að kostnaðarmati í tengslum við þennan hóp vegna fyrirsjáanlegs kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin en mat á umönnunarþörf langveikra barna er nýtt verkefni fyrir sveitarfélögin.

Á fundi í velferðarnefnd 4. september sl. um félagslegt húsnæði kom fram nauðsyn þess að samræma vinnu um úthlutun á félagslegu húsnæði og samningu reglugerða skv. 12. gr. frumvarpsins. Mikil þörf er á að slík samræming klárist.

Í öðru lagi skulu þeir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi tilnefna fulltrúa í samráðshóp sem fylgist með vinnu ráðuneytisins, fer yfir tilbúin frumvarpsdrög og hefur aðkomu að samningu reglugerða og handbókar.

Í þriðja lagi sammælast aðilar að yfirlýsingu þessari um að frumvörpin verði lögð fram strax og þing kemur saman að nýju sem fyrst eftir kosningar, annaðhvort sem stjórnarfrumvörp eða flutt af þingnefnd eða þingmönnum þeirra flokka sem að málinu standa. Lagalegur grundvöllur NPAsamninga verði tryggður fyrir áramót, annaðhvort með afgreiðslu frumvarpanna eða öðrum ráðstöfunum náist ekki að afgreiða þau. Með þessu verði um leið tryggt að samningum fjölgi um a.m.k. tuttugu á næsta ári og um leið verði séð fyrir þörfum svonefnds öndunarvélahóps.