5.9.2014

Setning Alþingis þriðjudaginn 9. september 2014

Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13.30 þriðjudaginn 9. september með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Guðrún Karls Helgudóttir, prestur í Grafarvogskirkju, prédikar og séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 144. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, minningarorð og ávarp, strengjakvartett leikur tónlist við þingsetningarathöfnina. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00.
Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 verður þá útbýtt.

Yfirlit helstu atriða þingsetningar:

Kl. 13.25 Þingmenn ganga til kirkju.Kl. 13.30 Guðsþjónusta.Kl. 14.05 Þingmenn ganga úr kirkju í Alþingishúsið.Kl. 14.11 Forseti Íslands setur þingið og flytur ávarp.Kl. 14.30 Strengjakvartett flytur Hver á sér fegra föðurland.
Strengjakvartettinn skipa Auður Hafsteinsdóttir og Helga Steinunn Torfadóttir, fiðlur, Matthías Stefánsson, víóla, og Bryndís Halla Gylfadóttir, selló.
Kl. 14.31 Forseti Alþingis flytur minningarorð.Kl. 14.36 Strengjakvartett flytur Ísland ögrum skorið. Kl. 14.38 Forseti Alþingis flytur ávarp.
Kl. 14.45 Hlé á þingsetningarfundi fram til kl. 16.00.

Framhald þingsetningarfundar:

Kl. 16.00 Tilkynningar, útbýting fjárlagafrumvarps 2015 og hlutað um sæti þingmanna.Kl. 16.20 Fundi slitið.
Hljóðútsending verður frá messu og útsending frá þingsetningarfundi í Ríkisútvarpinu og á sjónvarpsrás og vef Alþingis.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 10. september kl. 19.40.
Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 fimmtudaginn 11. september kl. 10.30.