9.9.2022

Síðsumarsfundur forsætisnefndar í Reykholti

Forsætisnefnd Alþingis kom saman til árlegs tveggja daga vinnufundar í Reykholti í Borgarfirði dagana 8.–9. september, þar sem starfsáætlun var sett fyrir 153. löggjafarþing ásamt því að ýmis stærri mál er varða starfsemi og rekstur þingsins og stofnana þess voru til umfjöllunar.

Um langt árabil hefur forsætisnefnd komið saman til lengri vinnufunda áður en nýtt löggjafarþing kemur saman. Slíkir sumarfundir forsætisnefndar eru að jafnaði haldnir í kjördæmum landsins til skiptis. Ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis sátu þann hluta fundarins þar sem fjallað var um málefni stofnana sem þeir veita forstöðu og gerðu þeir grein fyrir störfum Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis.

2022-09-09-Sumarfundur-forsaetisnefndar-ReykholtiForsætisnefnd Alþingis og áheyrnarfulltrúar, ásamt starfsfólki skrifstofu Alþingis: Diljá Mist Einarsdóttir, Auður Elva Jónsdóttir, Jódís Skúladóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Birgir Ármannsson, Andrés Ingi Jónsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Bergþór Ólason, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þórhallur Vilhjálmsson og Ragna Árnadóttir.