19.5.2021

Þingsályktunartillaga um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða samþykkt

Þingsályktunartillaga um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt á Alþingi í dag, á sama tíma og ráðherrafundur Norðurskautsráðsins fer fram í Hörpu og Ísland lætur af formennsku í ráðinu.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þingsályktunartillagan byggist á tillögum þingmannanefndar sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði til að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Tillögur nefndarinnar voru kynntar af ráðherra og nefndarmönnum 19. mars 2021 og birtar á vef Stjórnarráðsins. Fyrri stefna byggist á þingsályktun nr. 20/139 sem samþykkt var í mars 2011, en á þeim áratug sem liðinn er hafa norðurslóðir orðið æ miðlægari í alþjóðlegri umræðu, ekki síst vegna örra umhverfisbreytinga af völdum hlýnunar loftslags. Þá hafi Ísland gegnt veigamiklu hlutverki í alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins með formennsku í Norðurskautsráðinu á tímabilinu 2019–2021.

Í greinargerðinni segir jafnframt: „Í ljósi þessa var tímabært að ráðast í endurskoðun norðurslóðastefnunnar og skipaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í því skyni nefnd níu þingmanna með tilnefningum frá öllum þingflokkum. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um og gera tillögur að endurskoðaðri stefnu í málefnum norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, svo sem vistfræðilegu, efnahagslegu, pólitísku og út frá öryggi.“

Þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða