13.10.2016

Tölfræðilegar upplýsingar um 145. löggjafarþing

Þingfundum 145. löggjafarþings var frestað 13. október 2016. Þingið var að störfum frá 8. sept. 2015 til 19. des. 2015 og frá 19. jan. 2016 til 8. júní 2016 og síðan frá 15. ágúst 2016 til 13. október 2016.

Þingfundir voru samtals 172 og stóðu í rúmar 849 klst. Meðallengd þingfunda var 4 klst. og 56 mín. Lengsti þingfundurinn stóð í 16 klst. og 39 mín. og lengsta umræðan var um frumvarp til fjárlaga sem stóð í 97 og hálfa klukkustund. Þingfundadagar voru alls 146.

Af 237 frumvörpum urðu alls 107 að lögum, 4 var vísað til ríkisstjórnarinnar og 126 voru óútrædd. Af 179 þingsályktunartillögum voru 70 samþykktar, einni vísað til ríkisstjórnarinnar og ein felld. 107 tillögur voru óútræddar.

32 skriflegar skýrslur voru lagðar fram, þar af sex skv. beiðni, en 11 beiðnir um skýrslur höfðu borist er þingi var frestað.

Fimm álit nefnda um skýrslur bárust.

Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 442. Munnlegar fyrirspurnir voru 93 og var 86 svarað, tvær voru kallaðar aftur og þrjár biðu svars í lok þings en 2 voru felldar niður vegna ráðherraskipta.

349 skriflegar fyrirspurnir voru lagðar fram og var 321 þeirra svarað og 19 bíða svars er þingi var frestað en níu voru felldar niður vegna ráðherraskipta.

Þingmál til meðferðar í þinginu voru 900 og tala prentaðra þingskjala var 1828.

Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 341, þannig að alls svöruðu ráðherrar 748 fyrirspurnum frá þingmönnum ýmist á þingskjölum eða óundirbúið. Sérstakar umræður voru 57 og munnlegar skýrslur ráðherra voru fjórar.

Samtals voru fundir hjá fastanefndum 692.

Þingfundur 11. apríl 2016