Tilkynningar

Aldarfjórðungur frá því að deildaskipting var aflögð

31.5.2016

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, minntist þess í upphafi þingfundar að í dag er liðinn aldarfjórðungur, 25 ár, frá því að Alþingi var gert að einni málstofu.

Ræða forseta:

Ég vil vekja athygli hv. alþingismanna á því að í dag er liðinn aldarfjórðungur, 25 ár, frá því að Alþingi var gert að einni málstofu. Stjórnarskipunarfrumvarp til breytinga á stjórnarskrá um þetta efni var til lokaafgreiðslu á Alþingi 31. maí 1991 og voru lögin staðfest af forseta Íslands og birt í Stjórnartíðindum þann sama dag.

Með þessari breytingu var sömu skipan komið á og verið hafði við endurreisn Alþingis 1845, en þá starfaði þingið í einni málstofu. Sú skipan stóð til 1874 en með setningu stjórnarskrár fyrir Ísland það ár var ákveðið að skipta þinginu í tvær deildir, efri deild þar sem helmingur fulltrúa var konungkjörinn og neðri deild þar sem fulltrúar voru þjóðkjörnir. Jafnframt var gert ráð fyrir sameiginlegum fundum, sameinuðu Alþingi, til að setja og slíta þinginu og til að skera úr ágreiningi milli deildanna þegar þær gætu ekki komið sér saman um breytingar á frumvarpi.

Á síðustu öld var snemma farið að flytja verkefni frá deildunum til sameinaðs Alþingis og smátt og smátt varð sameinað þing að sérstakri málstofu, þriðju málstofunni, með eigið skipulag, m.a. sérstöku nefndakerfi. Skipting Alþingis í þrjár málstofur var svo fest enn frekar í sessi árið 1934 þegar fjárlagaafgreiðslan var flutt í sameinað Alþingi.

Þegar líða tók á síðustu öld var svo komið að einungis afgreiðsla lagafrumvarpa fór fram í deildunum en allt annað starf þingsins fór fram í sameinuðu Alþingi, þar með talin umfjöllun um fjárlög, þingsályktunartillögur, fyrirspurnir, skýrslur og umræður utan dagskrár að mestu leyti. Hugmyndir um afnám deildaskiptingar heyrðust því æ oftar.

Á þinginu 1990–1991 náðist víðtæk pólitísk samstaða um að stíga skrefið til fulls og flytja allt starf þingsins í eina málstofu. Í þessu sambandi var m.a. horft til reynslu danska og sænska þingsins, en afnám deildaskiptingarinnar í Danmörku 1953 og í Svíþjóð 1971 var talin hafa verið til mikilla bóta fyrir störf þinganna. Norðmenn ákváðu svo að fara sömu leið 2009, en þar hafði þingið starfað í þremur málstofum líkt og hér hafði tíðkast.

Sú ákvörðun að gera Alþingi að einni málstofu 1991 var heillarík og löngu tímabær, enda hinar sögulegu forsendur deildaskiptingarinnar þegar brostnar 1915 með afnámi konungkjörinna fulltrúa. Nú mun fáum eða engum hugnast að snúa til fyrra fyrirkomulags.

Upptaka af ræðu forseta

Efri deild 1991

Þingmenn efri deildar Alþingis að loknum síðasta fundi deildarinnar 31. maí 1991.


Neðri deild 1991

Þingmenn neðri deildar Alþingis að loknum síðasta fundi deildarinnar 31. maí 1991.