Tilkynningar

Ályktanir þingfundar ungmenna 17. júní 2019

17.6.2019

Þingfundur ungmenna var haldinn í Alþingishúsinu í dag. Þrír málaflokkar voru teknir til umfjöllunar; umhverfis- og loftslagsmál, jafnréttismál og heilbrigðismál. Í lok þingfundar tók Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ályktunum ungmennaþingsins. Sagði hún að þær yrðu teknar til umfjöllunar á Alþingi í haust og myndu fá skoðun í viðkomandi þingnefndum. Katrín sagði að ungmennaþingið væri mikilvægt vegna þess að með því fengju börn og ungmenni sterkari rödd.

Ályktanir fundarins fara hér á eftir:

Umhverfis- og loftslagsmál

Bregðast verður við loftslagsbreytingum og mengun áður en það er orðið of seint meðal annars með því að endurheimta votlendi, fækka ökutækjum sem knúin eru með óendurnýjanlegum orkugjöfum, fjölga hleðslustöðum fyrir rafmagnsbíla, setja mengunarskatt á bensín og díselbíla og grípa til aðgerða vegna mengunar fiskeldis í sjó. Vinna verður að vistvænni og sjálfbærri matvælaframleiðslu, leita leiða til að minnka matarsóun og minnka kjötneyslu. Samræma verður og einfalda flokkun sorps en eins og staðan er núna er verið að vinna að þessum málum með ólíkum hætti eftir sveitarfélögum. Þar má sem dæmi nefna að ekki er alls staðar gert ráð fyrir flokkun á lífrænu sorpi. Ungmenni telja löngu tímabært að íslensk stjórnvöld taki til hendinni og verndi náttúruna fyrir frekari skaða.

Jafnréttismál

Ungmenni brenna fyrir jafnréttismálum í sinni fjölbreyttustu mynd. Hvort sem um er að ræða stöðu fatlaðs fólks, hinsegin fólks, launajafnrétti kynjanna, stöðu innflytjenda á vinnumarkaði eða jafnrétti í íþróttum eru þetta allt málefni sem er mikilvægt að skoða og vinna markvisst að því að gera enn betur. Bregðast verður við slæmri stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, bæta fjárhagsstöðu þess, minnka fordóma gagnvart því og auka samfélagsþátttöku. Það er áhyggjuefni að Ísland sé að dragast aftur úr hvað varðar réttindi hinsegin fólks og mikilvægt að fræða almenning til að draga úr fordómum, styðja við bakið á þeim sem eru hinsegin og vinna að því að uppræta staðalímyndir. Launajafnrétti kynjanna er raunverulegt vandamál sem virðist erfitt að vinna á en aukin fræðsla fyrir ungmenni um kynjafræði, launajafnrétti og launaréttindi almennt eru mikilvægur liður í því að bregðast við. Þessi munur á milli kynjanna kemur einnig fram í íþróttum en þar á að vera sjálfsagt að stelpur fái sambærileg laun og jafnmikla virðingu og athygli fyrir sín afrek í íþróttum og strákar. Það er einnig áhyggjuefni að innflytjendur virðast fá greidd lægri laun en launþegar af íslenskum uppruna og allir ættu að vera sammála um að það á til dæmis ekki að viðgangast að verið sé að mismuna fólki eftir uppruna með þessum hætti, að menntun innflytjenda sé oft ekki metin með réttmætum hætti eða að brottfall sé mun hærra úr framhaldsskóla hjá þeim sem eru af erlendum uppruna.

Heilbrigðismál

Ungmennum finnst mikilvægt að hugað sé að forvörnum hvað heilbrigðismál varðar og að áhersla sé lögð á að skapa dugandi og heilbrigt samfélag. Virk þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, regluleg hreyfing, fræðsla um geðheilbrigði, næringu og markviss vinna gegn skólaforðun eru góð dæmi um það sem þarf að huga að í þessu samhengi. Skoða verður sérstaklega snjalltækjanotkun og þau áhrif sem hún getur haft á þroska barna í fjölbreyttu samhengi. Mikið hefur verið rætt um aukinn kvíða og depurð barna og unglinga og niðurstöður rannsókna sýna fram á að það er ástæða til að hafa áhyggjur. Það er því mikilvægt að tryggja gott aðgengi barna og ungmenna að sálfræðiþjónustu til að hægt sé að grípa inn í ef á þarf að halda. Það verður að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi sem styðja við heilbrigðan lífsstíl, vellíðan og hamingju.

IMG_2044Þingfundur ungmenna í fullum gangi.

IMG_2039

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylgdust með umræðunum af hliðarlínunni.

IMG_2042Þingmenn fylgdust með af áheyrendapöllum.

IMG_2052Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók við ályktunum þingfundar ungmenna.