Tilkynningar

Auður Elva Jónsdóttir ráðin fjármála- og rekstrarstjóri

28.5.2018

Auður Elva JónsdóttirAuður Elva Jónsdóttir hefur verið ráðin fjármála- og rekstrarstjóri Alþingis í stað Karls M. Kristjánssonar sem lét af störfum 30. apríl sl. Hún kemur til starfa síðar í sumar.

Auður Elva er 49 ára viðskiptafræðingur. Hún lauk MBA-námi frá Háskóla Íslands 2009 og BSc-prófi í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri 1997. Hún starfar nú sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sjúkrahúss Akureyrar og þar heyra undir hana sams konar starfseiningar og falla undir fjármála- og rekstrarstjóra Alþingis. 

Umsækjendur um starfið voru 47 en fimm þeirra drógu umsóknir sínar til baka. Þriggja manna nefnd fór yfir og lagði mat á hæfni umsækjenda í samræmi við reglur skrifstofunnar um ráðgefandi nefndir til að meta hæfni umsækjenda um æðstu stjórnendastörf á skrifstofu Alþingis. Hæfnisnefndina skipuðu Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri Alþingis, Stefán Guðmundsson, skrifstofustjóri fjármála og rekstrar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og Saga Steinþórsdóttir verkefnastjóri á starfsmannaskrifstofu Alþingis.