Tilkynningar

Ávarp forseta Alþingis við setningu 150. löggjafarþings

10.9.2019

Ég býð hv. alþingismenn og gesti Alþingis velkomna við setningu 150. löggjafarþings. Sérstakar hamingjuóskir færi ég nýskipuðum dómsmálaráðherra sem nú stígur sín fyrstu spor í ráðherraembætti. Þess má til gamans geta, en í alvöru þó, að dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er næstyngst þeirra sem gegnt hafa ráðherradómi á Íslandi, á eftir Eysteini Jónssyni. Ég segi í alvöru þó því að ánægjulegt er að sjá ungt fólk, og ekki síst ungar konur, hefjast til slíkra forystustarfa meðan enn hallar á þeirra hlut. Við þetta þokast ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, niður í 3. sæti á lista yfir yngstu ráðherra sögunnar, forsætisráðherra niður í það 5. og sá sem hér talar niður í það 6. Með öðrum orðum og öðruvísi sagt sitja þær þrjár konur sem yngstar hafa tekið við ráðherraembættum á Íslandi allar í núverandi ríkisstjórn.

Ég vænti þess að við alþingismenn munum eiga gott og uppbyggilegt samstarf á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til heilla. Sömuleiðis heilsa ég nýjum skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis og veit af langri reynslu að það mun leggja sig fram og gera sitt ýtrasta til að starfið hér á þingi verði árangursríkt.

Forsætisnefnd gekk frá starfsáætlun þingsins fyrir 150. löggjafarþing um miðjan ágúst sl. að höfðu hefðbundnu samráði við ríkisstjórn og formenn þingflokka. Hún var birt á vef Alþingis 3. september sl. Starfsáætlunin er í meginatriðum með sama sniði og á undanförnum þingum, en þó gert ráð fyrir að þingfundir standi nokkrum dögum lengur fram í júnímánuð en áður og er þar horft til reynslu frá undangengnum þingum.

Forsætisnefnd hefur ákveðið að gera breytingu á vinnureglum forseta við stjórn þingfunda. Sú breyting lýtur að framkvæmd andsvara og krefst ekki breytinga á þingsköpum því að forseti hefur samkvæmt þingsköpum sjálfstætt vald til að ákveða framkvæmd andsvara. Sú breyting sem gerð hefur verið er tvíþætt. Í fyrsta lagi verður þingmanni úr sama flokki og ræðumaður er ekki heimilt að veita andsvar. Svokallað „samsvar“ verður því ekki heimilað nema sérstaklega standi á, svo sem að fyrir liggi að þingmennirnir séu á öndverðum meiði í málinu eða að um málið gildi að þingmenn skiptist alls ekki eftir flokkslínum. Í öðru lagi verða andsvör ekki leyfð við endurteknar svokallaðar fimm mínútna ræður. Með þessum breytingum er verið að færa andsvörin í það horf sem til var stofnað í upphafi við afnám deildanna 1991.

Ég hef hug á því að vinna að frekari endurbótum á starfsháttum þingsins og sumt af því kallar á breytingar á sjálfum þingsköpunum. Í júní sl. óskaði ég þess vegna eftir því við formenn þingflokka að þeir tilnefndu fulltrúa í nefnd til að endurskoða þingsköpin og hefur nefndin þegar haldið sinn fyrsta fund. Ég tel mjög brýnt að nú takist loks að ljúka slíkri endurskoðun fyrir lok þessa kjörtímabils og að endurbætt þingsköp geti þá tekið gildi við upphaf næsta kjörtímabils. Því til viðbótar er nefndinni reyndar ætlað að fjalla um mögulegar minni háttar lagfæringar sem tekið gætu gildi strax á þessu þingi.

Ég nefndi við lok þinghalds í júní að í sumar yrði unnið að endurskoðun siðareglna alþingismanna í ljósi fenginnar reynslu. Í umboði forsætisnefndar unnu með mér að þeim breytingum formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og lagaskrifstofa þingsins. Á fundi forsætisnefndar í ágúst var svo fjallað um tillögur að breyttum siðareglum. Ég hef óskað eftir því við fulltrúa þingflokka í forsætisnefnd að þeir kynni drögin í sínum þingflokkum, auk þess sem þau verða nú send til umsagnar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og siðanefndar. Að fengnum þeim umsögnum og eftir atvikum ábendingum úr þingflokkum kemur málið aftur til áframhaldandi umfjöllunar í forsætisnefnd.

Í vor voru gerðar þær breytingar á upplýsingalögum að gildissvið þeirra tekur nú til stjórnsýslu Alþingis. Þó að Alþingi hafi fram til þessa verið undanþegið upplýsingalögum hefur þingið leitast við að haga upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla í samræmi við lögin. Með lagabreytingunni nú verða hins vegar sett skýr ákvæði um framkvæmdina, bæði í þingsköpum og reglum forsætisnefndar sem setja skal á grundvelli þeirra. Forsætisnefnd hefur þegar fjallað um drög að reglum um aðgang að gögnum frá Alþingi, sem og drög að frumvarpi með viðeigandi breytingum á þingskapalögum. Vænti ég þess að forsætisnefnd geti gengið frá reglunum síðar í þessum mánuði og lagt frumvarpið fram.

Framkvæmdir við langþráða nýbyggingu á Alþingisreit munu hefjast síðar á þessu ári. Útboð í jarðvinnu verður auglýst á næstu dögum og ætti hún að geta hafist í nóvember. Þá er gert ráð fyrir að útboð í vinnu við bygginguna sjálfa og tengibyggingu verði auglýst um mitt næsta ár og stefnt að því að uppsteypa hefjist haustið 2020. Verklok eru áætluð í mars 2023. Allar kostnaðaráætlanir miðast við að halda útgjöldum innan ramma fjármálaáætlunar. Þess má einnig geta að í gær voru opnuð tilboð í steinklæðningu byggingarinnar og bárust tvö tilboð, bæði innan kostnaðaráætlunar.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og ég vil biðja þingmenn og gesti okkar að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra að ganga fremstan með mér út úr salnum og til Skála. Þessum fundi verður nú frestað til kl. 16.