Tilkynningar

Börn minna á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

20.11.2017

Afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er 20. nóvember. Síðastliðinn föstudag gengu börn í 2. bekk frá frístundaheimilum Tjarnarinnar fylktu liði frá Hallgrímskirkju, niður Skólavörðustíg og að Ráðhúsinu með viðkomu í Alþingishúsinu. Við Alþingishúsið afhentu þau starfandi forseta Alþingis, Steingrími J. Sigfússyni, áskorun til stjórnvalda um að standa vörð um réttindi barna.

Börnin á frístundaheimilum Tjarnarinnar (frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða) hafa verið að fræðast um Barnasáttmálann undanfarna viku og minntust 28 ára afmælis Barnasáttmálans með þessum hætti. Í áskorunum barnanna kemur m.a. fram að þau hvetji alþingismenn til að kynna sér vel þær skuldbindingar sem Barnasáttmálinn felur í sér og haldi áfram að standa vörð um réttindi barna, samfélaginu til heilla. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 og lögfestur 20. febrúar 2013. Börn af frístundaheimilum afhenda forseta Alþingis áskorun til stjórnvalda