Tilkynningar

Breytingar á 6. gr. reglna forsætisnefndar um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar

23.2.2018

Á fundi forsætisnefndar Alþingis 22. febrúar voru samþykktar samhljóða breytingar á reglum um þingfararkostnað. Í þeim felast þrjár efnisbreytingar. Í fyrsta lagi eru ákvæði um bílaleigubíla gerð skýrari, í öðru lagi sett skýrari ákvæði um staðfestingargögn sem eru grundvöllur endurgreiðslu og loks eru ný ákvæði um með hvaða skilmálum þingmenn geta notað bílaleigubíl.

 Breytingar á 6. gr. reglna forsætisnefndar um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar:

 5. mgr. orðist svo:

Ef áætla má að alþingismaður þurfi í starfi sínu að aka meira en svarar 15.000 km á ári á eigin bifreið skal skrifstofan láta honum í té bílaleigubifreið til afnota, sbr. 1. mgr. Mörk hámarksaksturs á eigin bifreið geta þó komið til endurskoðunar á grundvelli verðþróunar eða útboðs, en forsætisnefnd skal samþykkja slíka breytingu. Óski alþingismaður eigi að síður að nota eigin bifreið falla greiðslur niður þegar 15.000 km-markinu er náð, svo og heimild til að nota bílaleigubíl. Alþingi greiðir allan rekstrarkostnað bílaleigubifreiðar, en skrifstofan getur sett nánari vinnureglur um hann, sbr. 10. mgr.

 Ný málsgrein, 9. mgr., bætist við greinina og orðist svo:

Alþingismaður, sem fær greiddan ferðakostnað skv. þessum reglum, eða endurgreiddan kostnað, skal ávallt greina frá tilefni ferðar í akstursbók, svo sem heimferð, fundi, samkomu o.s.frv. Enn fremur skulu fylgja með önnur staðfestingargögn, svo sem auglýsing um fund, fundarboð, tölvupóstur og annað slíkt, og getur skrifstofan sett nánari vinnureglur um þau.            

Ný málsgrein, 10. mgr., bætis við og orðist svo:

Skrifstofa Alþingis skal láta alþingismanni, sem notar bílaleigubifreið, í té almenna skilmála um notkun hennar, þar á meðal um skráningu aksturs, tímabundinn akstur annarra við sérstakar aðstæður, takmörkuð einkaafnot og um tryggingar. Í slíkum skilmálum má ákveða að þingmaður endurgreiði allt að 5% af kostnaði vegna tilfallandi óskráðra einkaafnota. Önnur einkaafnot skal skrá og koma þau til frádráttar á reikningi.