Tilkynningar

Dönsk stjórnvöld heiðra Ísland á 100 ára afmæli fullveldis

23.10.2018

Dönsk stjórnvöld sýndu Íslendingum mikla virðingu og vináttu með því að standa fyrir hátíðarsamkomu 10. okt. sl. í Óperuhúsinu í Kaupmannahöfn til að minnast 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Það var danska þingið og ríkisstjórnin sem buðu til hátíðarsamkomunnar, en hana sóttu um þúsund manns og þeirra á meðal fjölmargir Íslendingar búsettir í Danmörku ásamt dönskum Íslandsvinum og fleiri boðsgestum.

Til hátíðarinnar komu Margrét II. Danadrottning, Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa ásamt fleirum úr konungsfjölskyldunni og ráðherrum úr dönsku ríkisstjórninni. Meðal boðsgesta frá Íslandi voru forseti Íslands, forsætisráðherra Íslands og fleiri ráðherrar. Frá Alþingi var boðið forseta Alþingis, formönnum þingflokka, skrifstofustjóra Alþingis og þremur öðrum embættismönnum þingsins.

Heildarkostnaður Alþingis af þátttöku í hátíðarsamkomunni var 984.576 kr. Fyrir flug voru greiddar 359.657 kr. og 624.919 kr. í dagpeninga.