Tilkynningar

Embætti skrifstofustjóra Alþingis

16.4.2019

Auglýst er laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra Alþingis. Störf skrifstofustjóra Alþingis eru bæði fjölbreytt og krefjandi í lifandi umhverfi. Þar starfa um 130 manns sem sinna margvíslegum verkefnum. Að þingmönnum meðtöldum er Alþingi vinnustaður um 200 manna.

Helstu verkefni og ábyrgð

Skrifstofustjóri stýrir skrifstofu þingsins í umboði forseta Alþingis og ræður aðra starfsmenn þess. Hann er ráðgjafi forseta Alþingis og forsætisnefndar um allt er lýtur að störfum þingsins og rekstri þess. Hann situr fundi forsætisnefndar og fundi forseta með þingflokksformönnum. Í starfinu felast mikil samskipti við þingmenn og umsjón með þeirri aðstoð sem þingmönnum, þingnefndum og þingflokkum er látin í té. Þá sinnir skrifstofustjóri margháttuðum samskiptum við önnur þjóðþing.

Hlutverk skrifstofu Alþingis er að annast stjórnsýslu Alþingis. Í því felst að veita þingmönnum faglega aðstoð, aðstoða forustu þingsins, annast almennan rekstur Alþingis og sinna upplýsingamiðlun um hlutverk og starfsemi Alþingis. Nánari upplýsingar um verkefni og verkskipulag skrifstofunnar er að finna á vef Alþingis.

Hæfnikröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Meistarapróf eða embættispróf er skilyrði.
  • Víðtæk stjórnunarreynsla er áskilin.
  • Þekking á íslenskri stjórnskipan, samspili greina ríkisvaldsins og hlutverki Alþingis er áskilin.
  • Leiðtogahæfni og metnaður til að ná árangri í starfi.
  • Þekking á opinberum rekstri er kostur.
  • Góð samskipta- og samstarfsfærni.
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  • Reynsla af alþjóðlegu samstarfi er æskileg.
  • Gott vald á íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli.

Frekari upplýsingar um starfið

Forsætisnefnd Alþingis ræður skrifstofustjóra til sex ára í senn, sbr. 11. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Um laun og önnur starfskjör fer samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma.

Upplýsingar um starfið veitir Þorsteinn Magnússon varaskrifstofustjóri Alþingis í síma 563-0500 eða í tölvupósti, tm@althingi.is

Umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá ásamt prófskírteinum og kynningarbréfi þar sem umsækjandi rökstyður umsókn sína og lýsir hæfni sinni til að gegna embættinu. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Forsætisnefnd hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um embættið.

Ráðið verður í embættið frá og með 1. sept. 2019.

Gildi skrifstofu Alþingis eru þjónustulund, fagmennska og samvinna.

Starfshlutfall er 100%.
Umsóknarfrestur er til og með 06.05.2019