Tilkynningar

Fjölmenni á opnu húsi 1. desember

2.12.2018

Fjöldi manns kom á opið hús í Alþingi 1. desember í tilefni 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Alls komu nærri 2.700 gestir í Alþingishúsið og á köflum var röð langt út á götu.

Þingmenn og starfsmenn skrifstofu Alþingis veittu leiðsögn um húsið og ræddu við gesti sem kunnu vel að meta að heimsækja þingmenn á vinnustaðinn, hitta þá augliti til auglitis og fá tækifæri til að tala við þá um Alþingishúsið og þingstörfin. Þingmönnum var að sama skapi kærkomið að fá svo marga góða gesti.

Margir þeirra sem heimsóttu Alþingishúsið 1. desember voru að koma þar í fyrsta sinn og nutu þess fá að líta inn í ýmis herbergi hússins sem allajafna eru ekki opin almenningi í þessu sögufræga húsi.

Í Skála var sýning á ljósmyndum, skjölum og völdum tilvitnunum úr umræðum á þingi um sambandslagasamninginn. Margt vakti athygli gesta og eitt af því sem hafði hvað mest aðdráttarafl var ljósmynd af sambandslaganefndarmönnum frá 1918 í fullri líkamsstærð, sem komið hafði verið fyrir á efri hæð Skála.

Viðburðurinn var liður í dagskrá fullveldisafmælisársins 2018 og haldinn í samstarfi við afmælisnefnd.

Nánar um fullveldið og sambandslagasamninginn á undirsíðu.

Bragi Þór Jósefsson ljósmyndari fangaði stemmningu dagsins eins og sjá má á Flickr-síðu Alþingis.

Opid-hus-1.-des.-1Opid-hus-1.-des.-2Opid-hus-1.-des.-3

Opid-hus-1.-des.-4

© Bragi Þór Jósefsson