Tilkynningar

Fjórir einstaklingar gefa kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis

15.8.2024

Forsætisnefnd Alþingis auglýsti þann 3. júlí sl. að hún myndi fyrir lok septembermánaðar gera tillögu til Alþingis um einstakling til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis. Var áhugasömum boðið að gefa kost á sér eða koma á framfæri ábendingum um einstaklinga í embættið.

Fjórir einstaklingar hafa gefið kost á sér í embætti umboðsmanns Alþingis. Það eru: Anna Tryggvadóttir skrifstofustjóri, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Reimar Pétursson lögmaður.

Undirnefnd forsætisnefndar (Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti, og Líneik Anna Sævarsdóttir, 2. varaforseti) hefur gengið frá skipan ráðgjafarnefndar, sem verður undirnefndinni til aðstoðar við að gera tillögu til forsætisnefndar um einstakling sem forsætisnefnd tilnefnir við kosningu í embættið, en umboðsmaður er kjörinn á þingfundi.

Eftirtaldir sérfræðingar skipa ráðgjafarnefndina: Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Ásmundur Helgason landsréttardómari og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir mannrauðsráðgjafi. Starfsmaður nefndarinnar er Halldóra Viðarsdóttir, ritari forseta Alþingis.

Undirnefnd forsætisnefndar og ráðgjafarnefndin starfa samkvæmt reglum sem forsætisnefnd hefur sett og gilda um gerð tillögu við kosningu ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis.