Tilkynningar

Forsætisnefnd samþykkir stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og áreitni þegar alþingismenn eiga í hlut

9.6.2023

Forsætisnefnd Alþingis hefur, að höfðu samráði við þingflokka, samþykkt stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu þegar alþingismenn eiga í hlut.

Samþykkt stefnunnar og viðbragðsáætlunarinnar er mikilvægur áfangi í vinnu sem átt hefur sér stað á vettvangi Alþingis undanfarin ár til að stemma stigu við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu. Í könnunum á starfsumhverfi í þjóðþingum heimsins, könnun á vinnustaða­menningu Alþingis og þeim samfélagslegu áhrifum sem fylgt hafa #MeToo-hreyfingunni, hefur komið í ljós að þörf er á fræðslu, forvörnum og skýru verklagi um samskipti þingmanna, starfsfólks og annarra í þessum málum. Samsvarandi áætlun fyrir starfsfólk Alþingis hefur verið til staðar lengi og nú hefur verið sett viðbragðsáætlun sem gildir fyrir alþingismenn.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að undirbúningi viðbragðsáætlunar en ráðagerð um slíkt kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu um breytingu á siðareglum fyrir alþingismenn 2018. Við undirbúning áætlunarinnar var leitað upplýsinga um sambærilegar áætlanir, reglur og leiðbeiningar hjá öðrum þjóðþingum og alþjóðastofnunum vegna eineltis og áreitni af hálfu þingmanna. Einnig var óskað eftir skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands um lagaleg álitamál tengd gerð viðbragðsáætlunar um forvarnir og viðbrögð við einelti og áreitni þegar alþingismenn eiga í hlut. Samráð var haft við þingflokka um tillögu að stefnu og viðbragðsáætlun og efni hennar var kynnt á fundum þingflokka.

Í viðbragðsáætluninni er tekið fram að á Alþingi skuli markvisst unnið að því að ekkert umburðarlyndi ríki fyrir einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og annarri vanvirðandi framkomu í hvaða mæli eða mynd sem hún birtist. Áætluninni er ætlað að ná yfir samskipti þingmanna þeirra á milli, og samskipti þeirra við starfsfólk Alþingis, þ.m.t. starfsfólk þingflokka, og aðra á vettvangi þingstarfa. Sérstakur kafli er um forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir þar sem áhersla er lögð á að þingmenn leggi sig fram um að skapa heilbrigt og öruggt starfsumhverfi á Alþingi. Þá hefur kafli áætlunarinnar um verklag og málsmeðferð þann tilgang að leiða í ljós hvort hátterni þingmanns falli undir einelti, áreitni eða vanvirðandi framkomu og grípa til viðeigandi ráðstafana. Í lokakafla áætlunarinnar er síðan að finna skilgreiningar á einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og annarri vanvirðandi framkomu.