Tilkynningar

Forsetar Eistlands og Lettlands heimsækja Alþingi

25.8.2022

Egils Levits, forseti Lettlands, og Alar Karis, forseti Eistlands, heimsóttu Alþingi í dag, ásamt fylgdarliði. Forsetar Eystrasaltsríkjanna eru á Íslandi í boði Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í tilefni þess að 26. ágúst 2021 voru 30 ár liðin frá því að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna endurreist sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og taka upp formlegt stjórnmálasamband að nýju. Fresta varð fyrirhugaðri heimsókn í fyrra vegna heimsfaraldurs af völdum kórónuveiru. Gitanas Nausėda, forseti Litáens, kemur til Íslands síðar í dag.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, tók á móti þjóðhöfðingjunum og í ávarpi sínu í alþingissal lagði Birgir áherslu á þá samstöðu og eindrægni sem ríkti á Alþingi um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, til dæmis með einróma samþykkt ályktunar Alþingis 19. desember 1990 þessa efnis sem sjá má hér. Þegar þjóðhöfðingjarnir höfðu ritað nöfn sín í gestabók Alþingis áttu þeir fund með forseta Alþingis og fulltrúum þingflokka.

BALT-1Alar Karis, forseti Eistlands, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Egils Levits, forseti Lettlands.