Tilkynningar

Forseti Alþingis tekur við meistaraprófsritgerð um mörk löggjafarvalds og dómsvalds

22.2.2016

Ásgerður Snævarr afhenti nýlega forseta Alþingis, Einari K. Guðfinnssyni, meistararitgerð sína í lögfræði, en Ásgerður hlaut styrk frá Alþingi til verksins. Ásgerður stundaði mastersnám sitt við lagadeild Háskóla Íslands og var ritgerð hennar unnin undir handleiðslu Hafsteins Þórs Haukssonar dósents við lagadeildina.

Meistararitgerð Ásgerðar er um lagahugtakið og inntak lagaákvæða með hliðsjón af mörkum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er að skoða hvort löggjöf geti falið í sér of víðtækt svigrúm til mats svo jafnist á við framsal lagasetningarvalds. Ritgerðin sýnir m.a. að í ýmsum tilvikum feli löggjafinn dómstólum löggjafarvald með því að setja svo matskenndar lagareglur að þær eftirláta dómstólum að afmarka inntak þeirra.

Styrkir Alþingis til ritunar meistaraprófsritgerða er ætlað að vera hvatning til rannsókna á hlutverki Alþingis í lýðræðisskipan Íslands, verkefnum þingsins og starfsemi þess almennt. Rannsóknir þessar eru ekki bundnar við tilteknar fræðigreinar. 

Ásgerður var á síðasta ári valin úr hópi umsækjenda af valnefnd sem skipuð er  dr. Ágústi Einarssyni prófessor við Háskólann á Bifröst, Sigrúnu Brynju Einarsdóttur forstöðumanni á skrifstofu Alþingis og dr. Þorsteini Magnússyni aðstoðarskrifstofustjóri á skrifstofu Alþingis.

Meistaraprófsritgerð afhent