Tilkynningar

Framkvæmdir hafnar á Alþingisreit

4.2.2020

Skoflustunga-tekin-ad-vidbyggingu-vid-Althingishusid-thann-4.-februar-2020_20200204_00002_Photographer.is-Geirix-800x600

 

Nokkrir fyrrum þingforsetar voru viðstaddir, hér má sjá þau Salome Þorkelsdóttur, Halldór Blöndal, Ástu R. Jóhannesdóttur, Ólaf G. Einarsson, Einar K. Guðfinnsson og Sturlu Böðvarsson, ásamt skrifstofustjóranum Rögnu Árnadóttur og Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis. 
©Photographer.is Geirix 

Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu Alþingis var tekin í dag, 4. febrúar, og markar hún formlegt upphaf framkvæmda við nýbygginguna á Alþingisreit. Byggingin er þjónustukjarni sem í fyllingu tímans mun sameina á einum stað alla starfsemi nefndasviðs, skrifstofur þingmanna, funda- og vinnuaðstöðu þingflokka o.s.frv.

Hlé var gert á þingfundi á meðan Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri tóku fyrstu skóflustunguna. Að henni lokinni var þingmönnum, starfsfólki og öðrum gestum boðið upp á kaffi og kökur í Skála.

Á meðal gesta voru fyrrverandi forsetar Alþingis, arkitektar og aðrir hönnuðir og fulltrúar Framkvæmdasýslu ríkisins.

Verktakafyrirtækið Urð og grjót ehf. sér um jarðvegsvinnu en það átti lægsta tilboð í þann verkþátt framkvæmdanna þegar hann var boðinn út sl. haust.

S. Helgason átti lægsta tilboð í vinnslu á steinklæðningunni sem verður utan á húsinu en sú vinna var boðin út í ágúst 2019.
Útboð í vinnu við aðalbyggingu og tengiganga verða auglýst í vor og er gert ráð fyrir að uppsteypa hefjist í haust. Verklok eru áætluð í febrúar 2023.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingarframkvæmdunum. Hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreitnum var haldin árið 2016. Alls bárust 22 tillögur og hlutu Arkitektar Studio Granda fyrstu verðlaun.

Alþingisreiturinn svonefndi afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti og Tjarnargötu og nýbyggingin rís á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu. Í henni verða m.a. skrifstofur þingmanna, aðstaða þingflokka, fundarherbergi nefnda og skrifstofur starfsmanna þeirra. Þessi starfsemi er nú í leiguhúsnæði við Austurstræti. Byggingin verður um 6.000 fermetrar og í fjármálaáætlun eru áætlaðir 4,4 milljarðar króna til verkefnisins.

 

Skoflustunga-tekin-ad-vidbyggingu-vid-Althingishusid-thann-4.-februar-2020_20200204_00014_Photographer.is-Geirix-800x600

Skoflustunga-tekin-ad-vidbyggingu-vid-Althingishusid-thann-4.-februar-2020_20200204_00017_Photographer.is-Geirix-800x600

 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri munda skóflurnar.
© Photographer.is Geirix