Tilkynningar

Fréttastofa áhugamanna um pólitík heimsækir forseta Alþingis

17.12.2018

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fékk á dögunum góða gesti frá Fréttastofu áhugamanna um pólitík (F.Á.U.P.), fimm tíu ára drengi úr Háteigsskóla sem hafa mikinn áhuga á stjórnmálum. Þeir tóku viðtal við forseta sem birtist í nýrri þáttaröð sem þeir hafa unnið að undanfarið undir yfirskriftinni Ráðuneyti Íslands, þar sem þeir hafa tekið  viðtöl við forseta Alþingis og ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Þættirnir eru birtir á YouTube-rás Fréttastofu áhugamanna um pólitík en fyrr á árinu gerðu þeir þáttaröðina Borgarsýn Reykjavíkur um borgarstjórnarkosningarnar.

Forseti tók á móti fréttamönnunum á skrifstofu sinni í Alþingishúsinu og svaraði spurningum þeirra. Þeir spurðu m.a. hvort honum þætti of mikil rifrildi í þinginu, hvernig væri að vera ekki lengur í ráðuneyti, hvað hver þingmaður mætti tala lengi, hvort það vantaði fleiri þingmenn og hvernig samstarfið við hina flokkana væri. Að viðtali loknu gekk forseti með gestunum yfir í Kringluna, bauð þeim að gægjast inn í þingsalinn þar sem í gangi var umræða um geðheilbrigðismál og loks var gengið yfir í Skála. Fréttamennirnir ungu heita Arnmundur Sighvatsson,  Magnús Sigurður Jónasson, Matthías Atlason, Snorri Sindrason og Úlfur Marinósson.
 
Viðtalið við forseta Alþingis er í upphafi 3. þáttar.

IMG_0310
Viðtalið var tekið á skrifstofu forseta.

IMG_0318
Fylgst með umræðum í þingsal á sjónvarpsskjá á skrifstofu forseta.

IMG_0329
Forseti útskýrir skipulag dagsins fyrir fréttamönnunum.

IMG_0331
Lagt við hlustir.