Tilkynningar

Fulltrúi Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndina)

13.9.2018

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins auglýsir laust til umsóknar sæti í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndinni). Meginhlutverk nefndarinnar er að meta aðstæður í fangelsum, búðum fyrir flóttamenn og hælisleitendur, á lögreglustöðvum, vistunarheimilum, geðsjúkrahúsum o.s.frv. í aðildarríkjum CPT-sáttmálans með tilliti til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Frekari upplýsingar um störf nefndarinnar má nálgast á vefsvæðinu http://cpt.coe.int.

Þátttaka í nefndinni felur í sér skuldbindingu um vinnuframlag erlendis u.þ.b. 40 daga á ári. Nefndarmenn fá greiddan ferðakostnað og dagpeninga, auk greiðslna fyrir undirbúning og skýrslugerð í kringum fundi nefndarinnar. Vinnumál nefndarinnar eru tvö, enska og franska. 

Kröfur til umsækjenda:
• Menntun og reynsla sem tengist starfi nefndarinnar.  
• Sérþekking á málefnum frelsissviptra einstaklinga. 
• Mjög gott vald á öðru vinnumáli nefndarinnar, þ.e. ensku eða frönsku, og að auki einhver þekking á hinu. 
• Geta og vilji til að sinna störfum nefndarinnar.

Bent skal á að störf nefndarinnar geta verið bæði líkamlega og andlega krefjandi. Aðalstörf nefndarmanna þurfa enn fremur að vera þess eðlis að þau valdi ekki hagsmunaárekstrum. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins tilnefnir í október þrjá einstaklinga til að gangast undir hæfnismat og kýs ráðherranefnd Evrópuráðsins síðan einn af þeim í nefndina til fjögurra ára. 

Þau sem áhuga kynnu að hafa eru vinsamlega beðin um að fylla út þetta eyðublað, á ensku eða frönsku, og senda í tölvupósti til Bylgju Árnadóttur, alþjóðaritara, á netfangið bylgjaarna@althingi.is. 

Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 12. október nk.

Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hvetur konur jafnt sem karla til að sækja um stöðuna.