Tilkynningar

Fundur forsætisnefndar í Landsveit

16.8.2017

Forsætisnefnd Alþingis hélt sinn árlega sumarfund á Leirubakka í Landsveit 14.–15. ágúst sl. Sumarfundir forsætisnefndar eru haldnir í kjördæmum landsins til skiptis. Þetta eru að jafnaði tveggja daga fundir þar sem ýmis stærri mál er varða starfsemi og rekstur þingsins og stofnana þess eru til umfjöllunar. Einnig er ræddur undirbúningur nýs löggjafarþings, sem að þessu sinni hefst þann 12. september nk.

Auk forseta Alþingis og varaforseta þingsins sitja fundinn skrifstofustjóri Alþingis, aðstoðarskrifstofustjórar og að jafnaði forstöðumaður lagaskrifstofu auk þess sem ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis sitja þann hluta fundarins þar sem fjallað er um málefni þeirra stofnana.

Sumarfundur forsætisnefndar 2017

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Karl M. Kristjánsson, Sveinn Arason, Helgi Bernódusson, Þórunn Egilsdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Unnur Brá Konráðsdóttir, Jóhanna Hlöðversdóttir (ábúandi á Hellum), Teitur Björn Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Jón Þór Ólafsson, Þorsteinn Magnússon og Þórhallur Vilhjálmsson. Myndin er tekin við innganginn að manngerðum hellum við býlið Hella stutt frá Leirubakka. Hellarnir eru höggnir í sandstein og er sá stærsti þeirra lengsti manngerði hellir á Íslandi, eða um 50 metrar og er lofthæð 3-5 metrar. Talið er að þeir hafi verið gerðir af írskum munkum, enda bendir aldursgreining til að þeir séu yfir 1100 ára gamlir.