Tilkynningar

Gervigreindur talgreinir skráir ræður alþingismanna

16.11.2019

Ræður alþingismanna eru nú skráðar sjálfkrafa af gervigreindum talgreini. Talgreinirinn getur skráð um tíu mínútur af ræðum á einungis þremur og hálfri mínútu, hann hefur allt að 90% rétt eftir, og auðveldar til muna skráningu og birtingu á ræðum alþingismanna. Talgreinir Alþingis hefur þegar skráð niður um 640 klukkustundir af ræðum þingmanna.

Talgreinir Alþingis var þróaður af vísindamönnum við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík samkvæmt samningi við Alþingi frá því í október 2016. Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild HR, afhenti Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, talgreininn formlega á viðburði Almannaróms um máltækni á Degi íslenskrar tungu í Iðnó í dag.

Fyrsti fasi þróunarstarfsins var að smíða og þjálfa nýjan talgreini og prófa mismunandi tæknilegar útfærslu af talgreiningu sem hentaði verkefninu. Þá þurfti að gera hið mikla magn upptaka sem Alþingi á af ræðum, aðgengilegar fyrir talgreininn til þjálfunar. Einnig þurfti að smíða sérhæft mállíkan sem hentaði málfari í ræðum á Alþingi og gera kleift að bæta við orðum sem ekki er að finna í útgefnum orðabókum og orðasöfnum. Dæmi um slíkt orð er „rafsígarettur“.

Annar fasi vinnunnar, sem hófst í október á síðasta ári, var samþætting talgreinisins við tölvukerfi Alþingis og uppsetning ferla til að nýta talgreininn í að skrifa upp ræður þingmanna, fara yfir og leiðrétta þá skráningu og koma ræðunum á vef Alþingis.

Talgreinir Alþingis er smíðaður í opnum hugbúnaði og ætti að geta nýst mörgum öðrum sem þurfa að breyta töluðu máli í skrifaðan texta.

Afhending-talgreinis-16112019Jón Guðnason, dósent við verkfræðideild HR, afhenti Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, talgreininn formlega á viðburði Almannaróms um máltækni á Degi íslenskrar tungu í Iðnó í dag. Sjálfur er talgreinirinn óáþreifanlegur en Jón færði Rögnu ritvél sem táknræna gjöf á þessum tímamótum.