Tilkynningar

Hátíðarfundur Alþingis 19. júní í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna

16.6.2015

Hátíðarfundur verður haldinn á Alþingi föstudaginn 19. júní á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna og hefst kl. 11. Bein útsending verður frá fundinum í útvarpi og sjónvarpi. 

Fyrir fundinum liggur tillaga til þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands. Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, setur fundinn og flytur ávarp. Að loknu ávarpi þingforseta hefst síðari umræða um dagskrármálið, Jafnréttissjóð Íslands. Talar einn frá hverjum flokki í þeirri umræðu.  Að lokinni atkvæðagreiðslu um málið flytur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ávarp. Kvennakórinn Vox feminae, undir stjórn Margrétar Jóhönnu Pálmadóttur, syngur á hátíðarfundinum.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni mun Jafnréttissjóður Íslands hafa að markmiði að fjármagna eða styrkja verkefni sem ætlað er að stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála hérlendis og erlendis. Til þessara verkefna er ætlunin að veita sjóðnum 100 milljónir króna árlega næstu fimm ár, 2016–2020. Samkvæmt tillögunni kýs Alþingi þriggja manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara. Stjórn sjóðsins er ætlað að eiga samvinnu við samtök kvenna, aðila á vinnumarkaði, ráðuneyti, skóla, sjóði og stofnanir um viðfangsefni sjóðsins og tilkynna um úthlutanir úr honum 19. júní ár hvert.