Tilkynningar

Heiðursmerki Letterstedtska félagsins afhent

13.12.2016

Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi alþingismanni og ráðherra, var veitt heiðursmerki Letterstedtska félagsins síðastliðinn laugardag, 10. desember 2016,  í Alþingishúsinu. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, flutti stutt ávarp og Björn von Sydow, forseti félagsins og fyrrverandi forseti sænska þingsins, afhenti Rannveigu viðurkenninguna.

Rannveig Guðmundsdóttir hlýtur viðurkenninguna fyrir ötult starf við að efla norræna samvinnu. Rannveig sat á Alþingi 1989–2007.

Þetta er í sjöunda sinn sem Íslendingi hlotnast sá heiður að hljóta þessa viðurkenningu og voru þrír þeirra viðstaddir, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Sveinn Einarsson leikstjóri og Haraldur Ólafsson, prófessor og fyrrverandi alþingismaður. Auk þeirra þriggja hafa þau Sigurður Bjarnason sendiherra, Gylfi Þ. Gíslason ráðherra og Ármann Snævarr prófessor hlotið viðurkenninguna.

Letterstedtski sjóðurinn hefur haft það að markmiði síðan árið 1875 að stuðla að samstarfi milli norrænu ríkjanna fimm á sviði vísinda, lista og handverks. Á vegum sjóðsins starfa landsdeildir í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, formaður Íslandsdeildar sjóðsins er Þór Magnússon. Sjóðurinn veitir styrki til norræns samstarfs og ráðstefnuhalds, verðlaun til norrænna þýðenda og veitir árlega heiðurspening fyrir framlag til norræns samstarfs. www.letterstedtska.org

Heiðursmerki Letterstedska félagsins afhentBjörn von Sydow, Rannveig Guðmundsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Steingrímur J. Sigfússon.