Tilkynningar

Hertar sóttvarnaaðgerðir á Alþingi

7.10.2020

Í nýrri orðsendingu frá forseta og viðbragðsteymi Alþingis til þingmanna og starfsfólks skrifstofu Alþingis í tilefni af hertum sóttvarnaaðgerðum sem tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag er minnt á eftirfarandi:

Störf Alþingis eru áfram undanþegin fjöldatakmörkunum. Þrátt fyrir það gilda enn þau tilmæli að einungis þeir þingmenn, sem ætla að taka þátt í umræðum eða eiga erindi í þinghúsið, mæti þangað en aðrir fylgist með að heiman eða frá skrifstofum. Starfsfólk, sem á þess kost, vinnur heima.

Almenn nálægðartakmörkun er nú tveir metrar. Því er nú eindregið mælst til þess að þingmenn, sem dveljast um lengri eða skemmri tíma í þingsal eða hliðarsölum (á þingfundasvæðinu) beri grímur en frjálst er að taka þær af sér þegar í ræðustól er komið.

Starfsfólk sem vinnur í þinghúsi eða á erindi þangað hefur fengið þau tilmæli að bera ávallt grímur.

Brýnt er fyrir þingmönnum og starfsfólki að gæta vel að þessum atriðum og huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum öllum stundum.