Tilkynningar

Könnun á starfsumhverfi á Alþingi með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni

19.5.2020

Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni voru kynntar þingmönnum og starfsfólki skrifstofu Alþingis í dag. Forseti Alþingis fól Félagsvísindastofnun að gera könnunina sem var netkönnun með spurningum bæði til þingmanna og starfsfólks. Könnunin var gerð í janúar og febrúar sl. og var markmið hennar að safna gögnum um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni meðal þingmanna, starfsfólks þingflokka og starfsfólks skrifstofu Alþingis og greina þau. Spurningalisti könnunarinnar var sendur á allt þýðið. Af 206 manns svöruðu 153 og því var svarhlutfallið 74,3%.

Líkt og á öðrum opinberum vinnustöðum á Íslandi eru skýr viðmið um samskiptahætti á Alþingi, hvort tveggja í siðareglum fyrir alþingismenn og í áætlun skrifstofu Alþingis um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Erfið samskipti, einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni mældist þó í þessari könnun fremur meðal þingmanna en starfsfólks skrifstofu Alþingis.

Skýrslan í heild sinni er birt á vef Alþingis en hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum:

Einelti

Mikill meirihluti þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar um hvort þeir hefðu einhvern tíma orðið fyrir einelti á starfstíma sínum á Alþingi svaraði því neitandi, eða 80%. Þó svöruðu 20% spurningunni játandi en 13 af 153 þátttakendum í könnuninni tóku ekki afstöðu til spurningarinnar. Einelti var algengast meðal þingmanna, en 35,7% þeirra greindu frá því að hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starfið. Hlutfallið var 15% meðal starfsfólks skrifstofu og 6,3% meðal starfsfólks þingflokka. Ekki var mælanlegur kynjamunur á hlutfalli þeirra sem greindu frá því að hafa orðið fyrir einelti. Af þeim 28 svarendum sem höfðu upplifað einelti á starfstíma sínum voru 35,7% sem höfðu orðið fyrir því á síðustu sex mánuðum.

Kynferðisleg áreitni   

Hlutfall þeirra sem greindu frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni var 16%. Af þeim 24 svarendum sem höfðu upplifað kynferðislega áreitni á starfstíma sínum voru 12,5% sem höfðu orðið fyrir henni á síðustu sex mánuðum. Mikill meirihluti þeirra sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni greindi frá því að karl hefði áreitt sig kynferðislega, eða 87,5%, en 12,5% gerenda voru konur. Einungis 12,5% þeirra sem orðið höfðu fyrir kynferðislegri áreitni tilkynntu um athæfið.

Kynbundin áreitni

Alls greindu 18,4% þátttakenda frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynbundinni áreitni á starfstíma sínum á Alþingi eða í tengslum við starf sitt þar. Kynbundin áreitni mældist mest meðal þingmanna, eða 31,8%, og höfðu hlutfallslega fleiri konur (25%) en karlar (10,4%) orðið fyrir kynbundinni áreitni. Mikill meirihluti þeirra sem beittu kynbundinni áreitni voru karlar, eða rúm 74%. Af þeim 27 þátttakendum sem höfðu upplifað kynbundna áreitni voru 26,9% sem höfðu orðið fyrir henni á síðustu sex mánuðum.

Ofbeldishegðun gagnvart þingmönnum

Í viðtalsrannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og Evrópuráðsþingsins (PACE) frá árinu 2018 var rætt við þingkonur og aðrar starfskonur þjóðþinga um kynjamismunun, áreitni og ofbeldi sem konur á evrópskum þjóðþingum verða fyrir. Umræðurammi með fyrirfram ákveðnum spurningum var hafður til hliðsjónar í viðtölunum. Í rannsókn Félagsvísindastofnunar voru átta beinar spurningar sem búnar voru til úr rammanum lagðar fyrir alla þingmenn á Alþingi, bæði konur og karla. Alls voru þeir þingmenn sem svöruðu spurningunum 45 talsins. Af þeim höfðu 23,3% upplifað að myndir og/eða ummæli um þau sem höfðu kynferðislegar vísanir eða inntak hefðu birst í fjölmiðlum. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 31,6% kvenkyns þingmanna og 16,7% karla á þingi. Þá töldu 29,5% sig hafa orðið fyrir áreitni, þ.e. hegðun sem er ítrekuð og ógnandi. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 36,8% kvenna og 24% karla á þingi. Tæp 16% þingmanna greindu frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt á Alþingi. Jafnframt greindu 14,6% svarenda frá því að nánum fjölskyldumeðlimum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf sín á Alþingi og tæp 50% töldu að starf þeirra sem þingmenn hefði valdið fjölskyldumeðlimum erfiðleikum í störfum eða námi. Ekki kom fram mikill hlutfallslegur munur á svörum karla og kvenna við síðustu spurningunni.

Úrvinnsla og eftirfylgni könnunarinnar

Forsætisnefnd ákvað á fundi sínum 13. janúar sl. að stofna jafnréttisnefnd Alþingis. Nefndin er skipuð þeim Guðjóni Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur af hálfu forsætisnefndar og af hálfu starfsfólks skrifstofu Alþingis sitja í henni Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri og Saga Steinþórsdóttir starfsmannastjóri. Nefndinni er ætlað að ræða eftirfylgni könnunarinnar. Jafnréttisnefnd Alþingis mun hafa samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis eftir því sem tilefni verður til.

„Ég tel afar mikilvægt að þessi könnun hafi verið gerð sem liður í aðgerðum, í ferli, til að takast á við og laga það sem betur má fara. Við hljótum að taka niðurstöðurnar alvarlega, sláandi sem þær eru, fylgja þeim eftir og halda vinnunni áfram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.