Tilkynningar

Könnun um starfsumhverfi og vinnustaðamenningu á Alþingi

17.1.2020

Alþingi stendur nú fyrir rannsókn á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni. Félagsvísindastofnun hefur umsjón með rannsókninni. Um er að ræða netkönnun með spurningum bæði til þingmanna og starfsmanna sem tekur mið af rannsókn Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og Evrópuráðsþingsins (PACE) á kynferðislegri áreitni og ofbeldi á evrópskum þjóðþingum og verða niðurstöður því að hluta til samanburðarhæfar. Einnig verður nýleg rannsókn sem Félagsvísindastofnun vann fyrir velferðarráðuneytið á íslenskum vinnumarkaði, Valdbeiting á vinnustað, höfð til hliðsjónar og samanburðar.

Könnunin er þannig þáttur í því ferli að kortleggja umfang ofbeldishegðunar, svo sem eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni, á þjóðþingum Evrópu, en hún er einnig til að afla almennra upplýsinga um Alþingi sem vinnustað og sameiginlegt starfsumhverfi þingmanna og starfsmanna.

Starfsmenn og þingmenn hafa fengið bréf frá forseta Alþingis með hvatningu til að taka þátt í könnuninni, þar sem bent er á að góð svörun auki verulega gæði könnunarinnar og gagnsemi. Þá er áréttað að netföng verði ekki tengd svörum þátttakenda og engar aðrar persónugreinanlegar upplýsingar verði nýttar í rannsókninni, hvorki við greiningu gagna né framsetningu niðurstaðna í lokaskýrslu.