Tilkynningar

Kosning ríkisendurskoðanda

31.1.2018

Forsætisnefnd Alþingis mun eigi síðar en í apríl nk. gera tillögu til Alþingis um einstakling til að gegna embætti ríkisendurskoðanda og verður hann kjörinn á þingfundi, sbr. 2. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til sex ára í senn, en heimilt er að endurkjósa sama einstakling einu sinni.

Ríkisendurskoðandi skal hafa þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu. Þeir sem áhuga kunna að hafa á að gegna embættinu, og uppfylla áðurgreind skilyrði, skulu senda forsætisnefnd Alþingis erindi þar um ásamt ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf. Einnig geta þeir sem vilja koma með ábendingar um einstaklinga í embættið komið slíku á framfæri við forsætisnefnd. Erindi skulu berast forsætisnefnd bréflega eða með rafrænum hætti á netfangið kosningrikisendurskodanda@althingi.is fyrir 26. febr. nk.

Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis. Hann er trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Skrifstofa ríkisendurskoðanda nefnist Ríkisendurskoðun og fer hann með stjórn hennar. Ríkisendurskoðandi er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögum um embættið.

Áhugasamir karlar jafnt sem konur eru hvött til að senda forsætisnefnd erindi um efnið.

Forsætisnefnd Alþingis ákveður samkvæmt lögum laun ríkisendurskoðanda.

 

Forsætisnefnd Alþingis,

Alþingishúsinu við Austurvöll.