Tilkynningar

Lífið í Alþingishúsinu færist smám saman í hefðbundið horf

29.5.2020

Nú þegar slakað hefur verið á tveggja metra reglunni og 200 manns mega koma saman færist lífið í Alþingishúsinu smám saman í hefðbundið horf. Allir þingmenn geta nú setið í sætum sínum í þingsal og greitt atkvæði með venjubundnum hætti. Í hliðarherbergjum við þingsal er vinnuaðstaða fyrir þingmenn og ráðherra sem gefur þeim kost á að hafa rýmra um sig og í efrideildarsal verður áfram hægt að fylgjast með þingfundi á skjá.

Nú er gert ráð fyrir að nefndarmenn séu að jafnaði staddir á fundarstað, en þeim nefndarmönnum sem óska þess að taka þátt í fundi nefndar með fjarfundabúnaði af sóttvarna- eða heilsufarslegum varúðarástæðum er slíkt heimilt. Þá er gert ráð fyrir að gestir, sem kvaddir eru á nefndarfund, taki áfram þátt í fundi með fjarfundabúnaði nema þegar nefnd metur svo að nauðsynlegt sé að viðkomandi séu staddir á fundi. Gestir sem mæta á nefndarfund skulu þó aldrei vera fleiri en tveir í einu.

Ekki verður tekið á móti hópum í Skólaþingi né í þinghúsinu en einstaka gestir mega koma á svæðið.

Viðbragðsteymi Alþingis minnir þó á að þrátt fyrir að afar lítið sé um smit í þjóðfélaginu í dag þá sé of snemmt að fagna fullum sigri og slaka á almennum sóttvörnum. Sumar þeirra, eins og að þvo hendur vel og vandlega í 20 sekúndur, séu góðar og gildar í hvaða árferði sem er. Handsprittun sé ágæt ef þvottur er ekki í boði. Sjálfsagt sé að virða óskir um fjarlægð og þarfir viðkvæmra og heilsast án handabanda, knús verði að bíða betri tíma.

IMG_5942