Tilkynningar

Minnisblað um undirbúning og kostnað við hátíðarþingfund á Þingvöllum 18. júlí 2018

24.9.2018

Til forseta Alþingis
Frá skrifstofunni 
21. sept. 2018

Vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga um undirbúning og kostnað við hátíðarþingfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí sl. vill skrifstofa Alþingis koma á framfæri nokkrum athugasemdum og skýringum. 

I. Alþingi ákveður að halda hátíðarþingfund á Þingvöllum 

Alþingi samþykkti 13. okt. 2016, að tillögu allra formanna stjórnmálaflokkanna, þingsályktun um hvernig minnast skyldi aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í tilefni þess að árið 2018 eru hundrað ár liðin frá því er Ísland varð á ný fullvalda ríki með sambandslögunum 1918. Ákveðið var m.a. að halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag fyrir einni öld var samningum milli íslenskra og danskra þingmanna um fullveldi Íslands lokið. Hátíðarfundurinn var aðeins einn þáttur í margþættum hátíðarhöldum á árinu sem undirbúningsnefnd, sem Alþingi kaus, hefur staðið fyrir með þátttöku fjölda félaga, samtaka, hópa og stofnana. Loks hyggst ríkisstjórnin minnast þess með hátíðardagskrá 1. desember nk. að þá verða 100 ár liðin frá gildistöku sambandslaganna. 

II. Undirbúningur fer af stað vorið 2017

Vorið 2017 var skipaður vinnuhópur innan skrifstofunnar sem hafði á hendi undirbúning að Þingvallafundinum og jafnframt samráð við þá aðila utan þings sem kæmu að undirbúningnum. Á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst það ár var svo lagt fram minnisblað um undirbúning fundarins. Í júlí óskaði skrifstofan eftir samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins um framkvæmdir við smíði þingpalls fyrir hátíðarþingfundinn, þ.e. frumathugun á verkinu, áætlunargerð og eftirlit. Um svipað leyti var leitað eftir því við Ríkisútvarpið að það myndi sýna beint frá þingfundinum. Auk þess var leitað til annarra aðila um samstarf, lögreglu, þjóðgarðsins á Þingvöllum og Vegagerðarinnar. 

III. Þingpallar og umgjörð fundarins

Þegar undirbúningur hátíðarfundarins hófst var ljóst að veigamesti framkvæmda- og kostnaðarþátturinn yrði pallur fyrir þingmenn og gesti þingsins. Þegar hátíðarþingfundir voru haldnir árið 1994 og 2000 á Þingvöllum voru byggðir timburpallar. Eftir nokkra umfjöllun um þingpalla var ákveðið að leigja svokallaða sviðspalla, en það var talinn einfaldari og umhverfisvænni kostur. Aldrei var reiknað með fjölmenni á Þingvöllum miðvikudaginn 18. júlí, líkt og verið hafði á þjóðhátíðum á Þingvöllum áður. Allir væru þó velkomnir til Þingvalla til að fylgjast með hátíðarþingfundinum en ákveðið var að leggja meira í sjónvarpsútsendingu frá þingfundinum en á fyrri hátíðarfundum. Fáir gestir komu á fundinn en sjónvarpsáhorf reyndist mikið. 

IV. Fjárhæð í rekstraráætlun

Framan af undirbúningnum var á litlu öðru að byggja varðandi kostnað við þingfundinn en uppreiknuðum kostnaði við fyrri hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum, að teknu tilliti til þess að á þeim hátíðum var þingfundurinn aðeins hluti af viðameiri dagskrá þjóðhátíðar á Þingvöllum. Við gerð rekstraráætlunar Alþingis fyrir árið 2018 var ákveðið að taka frá 45 milljónir króna til verksins en að öðru leyti reiknað með að greiða kostnað með rekstrarfjárveitingum og höfuðstól. Hér var því ekki um eiginlega kostnaðaráætlun að ræða, enda ekki forsendur til þess, en nokkurs misskilnings hefur gætt um þetta í umræðunni. Á þeim tímapunkti var ljóst að talsverð óvissa væri um ýmsa kostnaðarliði enda var jafnan tekið fram við umfjöllun um málið innan Alþingis, m.a. á fundi forsætisnefndar 19. janúar 2018, að kostnaður við verkefnið gæti orðið meiri en sú fjárhæð sem ráðstafað hafði verið til þess í rekstraráætlun Alþingis, sbr. einnig svar forseta við fyrirspurn þingmanns nokkru síðar. 

V. Tilboð í þingpalla 

Eftir frumathugun og gerð fyrstu áætlana um uppsetningu þingpalla birti Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsingu í Fréttablaðinu um miðjan mars 2018 þar sem óskað var eftir tilboðum í leigu og uppsetningu sviðspalla. Frestur var gefinn til 6. apríl til að skila inn tilboðum. Aðeins tvö verðtilboð bárust. 

Við könnun á innsendum verðtilboðum komu í ljós nokkrir ágallar á lægra tilboðinu og var þeim aðila gefinn frestur af Framkvæmdasýslu ríkisins til að bæta úr ella yrði verkkaupa (Alþingi) ráðlagt að hafna því. Við þeim óskum var ekki orðið og tilboðinu því hafnað. Eftir það lá ljóst fyrir að gengið yrði til samstarfs við Exton um leigu og uppsetningu pallanna. Verðtilboð þeirra var á endanum um 40 m.kr. og við það staðið í öllum atriðum. 

VI. Tæknimál 

Snemma í undirbúningnum hófust umræður um nauðsynlegan tæknibúnað (hljóð, lýsingu, rafmagn o.s.frv.) og kröfur til hans. Að mörgu var að hyggja, hljóð þurfti að berast nokkra leið frá þingpallinum, lýsing að henta beinni sjónvarpsútsendingu sem mikill metnaður var lagður í og þá þurfti að leiða rafmagn að þingstaðnum. Eftir afgreiðslu tilboða í uppsetningu þingpallanna var kallað eftir verðtilboðum í stærstan þátt tæknimálanna frá þeim fyrirtækjum sem upphaflega höfðu lagt inn verðtilboð í pallana. Unninn var samanburður milli þessara tilboða og var niðurstaðan sú að taka tilboði frá Exton í tæknimálin í heild sinni. Þegar verðtilboðin í tæknimálin (hljóð- og ljósabúnað ásamt burðarkerfi og upphengibúnaði auk vinnu tæknimanna við uppsetningu búnaðarins og stýringu hans) og mat á þeim lá fyrir, sem reyndist vera um 25 m.kr., var fyrst hægt að gera sér raunhæfa grein fyrir heildarkostnaði við verkefnið í heild sinni, þ.e. ríflega 80 m.kr. Um öll tæknimál tengd þingfundinum hafði Framkvæmdasýsla ríkisins og verkkaupi (Alþingi) samráð við fjölmarga aðila. 

VII. Viðkvæmur fundarstaður 

Þingvellir eru á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og helgur staður fyrir þjóðina. Áhersla var því lögð á að reyna að mæta öllum kröfum um að vernda sem mest svæðið þar sem pallurinn var settur upp. Þegar pallar og allur búnaður hafði verið fjarlægður að kvöldi fundardags, 18. júlí sl., var ekki hægt að sjá að þar hefði verið fundur fyrr um daginn. Fyrir það eiga framkvæmdaraðilar og aðrir þeir sem komu að undirbúningi fundarins þakkir skildar. 

VIII. Allar upplýsingar veittar

Loks er þess að geta að skrifstofan hefur leitast við að svara öllum þeim fyrirspurnum sem borist hafa, ýmist frá þingmönnum, fréttamönnum eða einstaklingum, um kostnað við hátíðarfundinn á Þingvöllum eftir að yfirlit lá fyrir um hann, hafði verið kynnt forsætisnefnd og birt á vef Alþingis. Sömuleiðis hefur Framkvæmdasýsla ríkisins, í samráði við skrifstofu þingsins, svarað þeim fyrirspurnum sem hún hefur fengið og afhent umbeðin og tiltæk gögn. Þess er svo að vænta að  Framkvæmdasýsla ríkisins geri skilaskýrslu um verkið eins og lög standa til.