Tilkynningar

Norræn samvinna, hornsteinn í alþjóðlegu samstarfi

23.3.2019

Dagur Norðurlandanna er laugardaginn 23. mars. Af því tilefni ritaði forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, eftirfarandi grein um norrænt samstarf. Af sama tilefni blakta fánar allra Norðurlandanna við Alþingishúsið á þessum degi.

Í dag, 23. mars, fögnum við degi Norðurlandanna. Norrænt samstarf hefur í áratugi verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslands og þar með talið í alþjóðlegu þingmannasamstarfi sem Alþingi tekur þátt í. Tugþúsundir Íslendinga hafa dvalið á hinum Norðurlöndunum við nám eða störf um lengri eða skemmri tíma. Lætur nærri að um helmingur þeirra um það bil 40 þúsund íslenskra ríkisborgara sem býr erlendis búi í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Samstarf Norðurlandanna er einstakt á alþjóðavísu og byggir á gagnkvæmri vináttu, virðingu og samvinnu án yfirþjóðlegra stofnana. Grundvallarsáttmáli norræns samstarfs, Helsingfors-sáttmálinn, sem var undirritaður þennan dag árið 1962, var tímamótasamningur. Hann tryggði ríkisborgurum Norðurlandanna jafnt aðgengi til vinnu og náms hvar sem var á Norðurlöndunum sem urðu þar með eitt atvinnu- og samskiptasvæði. Norðurlöndin urðu þannig brautryðjendur í þróun af þeim toga.

Norðurlöndin standa vörð um sameiginleg gildi lýðræðis og virðingar fyrir mannréttindum. Þá hafa Norðurlöndin verið leiðandi í jafnréttismálum og umhverfisvernd. Þá er ótalið víðtækt samstarf landanna í menningarmálum, menntamálum og rannsóknum, vísindum og listum, svo fátt eitt sé talið.

Í ár eru 57 ár frá undirritun og gildistöku Helsingfors-sáttmálans og einmitt í ár fögnum við einnig 100 ára afmæli norrænu félaganna; grasrótarsamstarfs íbúa Norðurlanda. Það er því tilefni til að fagna og því flöggum við átta fánum allra Norðurlandanna við Alþingi í dag. Til hamingju með daginn!

Steingrímur J. Sigfússon
forseti Alþingis