Tilkynningar

Fornleifauppgröftur á Alþingisreit - leiðsögn um svæðið sumarið 2012

29.6.2012

Í sumar stendur yfir fornleifarannsókn á svokölluðum Alþingisreit, á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis.

Boðið er upp á leiðsögn um svæðið í fylgd þeirra sem starfa við uppgröftinn. Á sunnudögum kl. 14 er boðið upp á leiðsögn á íslensku en leiðsögn á ensku á hverjum virkum degi klukkan 11 út ágúst. Leiðsögnin hefst fyrir utan Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 við Aðalstræti 16.

Einnig er hægt að fylgjast með fréttum af uppgreftrinum á netinu á síðu sem þeir sem starfa að uppgreftrinum halda úti.

Rannsóknin er framhald af uppgrefti frá árunum 2008-2009 þar sem grafið var á um 2000 fermetra svæði og minjar allt frá landnámi til okkar daga komu í ljós. Um 300 fermetra svæði var þá skilið eftir sem verður nú rannsakað að fullu.

Í sumar verður rannsóknin kynnt almenningi og leitast við að varpa ljósi á minjarnar sem þarna kunna að leynast og samhengi þeirra við aðrar minjar í miðbæ Reykjavíkur. Vala Garðarsdóttir er stjórnandi fornleifarannsóknarinnar. Fræðsla um rannsóknina er samstarfsverkefni Alþingis, sem kostar uppgröftinn, og Minjasafns Reykjavíkur, sem rekur Landnámssýninguna í Aðalstræti.