Tilkynningar

Opið málþing um þingræði föstudaginn 14. október

13.10.2011

Opið málþing á vegum Alþingis og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála
í tilefni af útgáfu bókarinnar „Þingræði á Íslandi: Samtíð og saga“ föstudaginn 14. október 2011 kl. 13.15-15.00, í Háskóla Íslands, Háskólatorgi stofu 105.

Dagskrá:
1. Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, opnar málþingið.

2. Dr. Þorsteinn Magnússon, stjórnmálafræðingur og aðstoðarskrifstofustjóri á Alþingi.
Megineinkenni þingræðis á Íslandi.

3. Dr. Stefanía Óskarsdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
List hins mögulega: Myndun og slit ríkisstjórna.

4. Dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Hugmyndir um afnám þingræðis 1904-2009; endurtekin stef og samhengi.

5. Dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Þingræðisreglan sem meginregla.

Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við HÍ, og Svavar Gestsson, fv. alþingismaður og ráðherra, ræða við höfunda með þátttöku gesta fundarins. Dr. Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs HÍ, stjórnar umræðum.

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn 1904 markaði sú nýja stjórnskipan upphaf þingræðis á Íslandi. Einni öld síðar, á árinu 2004, ákvað forsætisnefnd Alþingis að standa að ritun bókar um þingræði á Íslandi í 100 ár til að minnast tímamótanna. Afraksturinn, bókin „Þingræði á Íslandi: Samtíð og saga“ kom út 1. október sl. og er hún gefin út af Alþingi í samvinnu við Forlagið, bókaútgáfu. Í bókinni er m.a. fjallað um merkingu hugtaksins þingræði og hvernig það hefur verið skilgreint og skilið gegnum tíðina. Fjallað um uppruna þingræðis, eðli og inntak þingræðisreglunnar, sögu þingræðis almennt og á Íslandi, framkvæmd þess hér á landi fyrr og síðar og stöðu Alþingis í því meirihlutaræði sem hér hefur lengst af ríkt.