Tilkynningar

Styrkir til að stuðla að umræðu og fræðslu um Evrópusambandið

4.8.2011

Samkvæmt ákvörðun á fjárlögum Alþingis er auglýst eftir styrkumsóknum til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu og fræðslu um Evrópusambandið, stefnu þess og áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að sambandinu. Að þessu sinni er úthlutunarfé til ráðstöfunar allt að 27 milljónir króna.

Styrkir eru veittir til íslenskra félaga og félagasamtaka sem, samkvæmt tilgangi sínum, fjalla um málefni Evrópusambandsins og lýsa sjónarmiðum sínum til hugsanlegrar aðildar að sambandinu.

Styrkir eru eingöngu veittir til skýrt afmarkaðra verkefna, svo sem til þess að:
a. útbúa efni og birta það í blöðum, ritum eða með öðrum hætti,
b. halda opna fundi og ráðstefnur,
c. standa fyrir fyrirlestrum sérfræðinga,
d. standa fyrir ýmiss konar fræðslustarfsemi,
samkvæmt nánari ákvörðun úthlutunarnefndar um styrki til að stuðla að umræðu og fræðslu um Evrópusambandið.

Ekki er heimilt að veita styrki til eiginlegs reksturs, m.a. rekstur skrifstofu, þ.m.t. húsaleigugreiðslur og launagreiðslur til starfsfólks. Ekki eru veittir styrkir til einstaklinga.

Í umsókn um styrk skal koma fram greinargóð lýsing á því verkefni sem sótt er um styrk til að vinna að ásamt kostnaðaráætlun. Jafnframt skal greina frá þeim grundvelli sem félag eða félagasamtök byggja starfsemi sína á og hver sé tilgangur þeirra. Með umsókn skulu fylgja samþykktir eða stofnskrá félags eða félagasamtaka. Hægt er að sækja um styrki til fleiri en eins verkefnis í sömu umsókn.
Vakin er athygli á reglum úthlutunarnefndar, sem nálgast má á vefslóðinni:
http://www.althingi.is/pdf/ESB-styrkir_2011.pdf.

Styrkhafar skulu fyrir lok árs og við lok styrkts verkefnis skila stuttri skýrslu til úthlutunarnefndar um ráðstöfun styrkjanna ásamt reikningum.

Umsóknarfrestur um styrki er til þriðjudagsins 9. ágúst 2011.

Umsóknir skulu berast skrifstofu Alþingis, merktar:

ESB fræðslu- og umræðustyrkir
Jörundur Kristjánsson, ritari úthlutunarnefndar
Skrifstofa Alþingis
150 Reykjavík

Stefnt er að því að úthlutun fari fram í fyrri hluta septembermánaðar.