Tilkynningar

Úthlutunarnefnd styrkja til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu um Evrópusambandið skipuð

30.6.2011

Forsætisnefnd Alþingis hefur skipað úthlutunarnefnd styrkja til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu um Evrópusambandið. Allir nefndarmenn og varamenn eru fyrrverandi rektorar íslenskra háskóla.

Formaður nefndarinnar er Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, en auk hans eiga sæti í nefndinni Guðfinna S. Bjarnadóttir, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, og Ólafur Proppé, fyrrverandi rektor Kennaraháskóla Íslands. Varamenn í úthlutunarnefnd eru Magnús B. Jónsson, fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, og Stefanía Katrín Karlsdóttir, fyrrverandi rektor Tækniháskóla Íslands.

Samkvæmt ákvörðun á fjárlögum Alþingis verður auglýst eftir styrkumsóknum til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu og fræðslu um Evrópusambandið, stefnu þess og áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að sambandinu. Að þessu sinni er úthlutunarfé til ráðstöfunar allt að 27 milljónir króna.

Auglýst verður eftir umsóknum um styrki í byrjun júlí og er umsóknarfrestur til þriðjudagsins 9. ágúst næstkomandi. Gert er ráð fyrir að niðurstöður úthlutunarnefndar liggi fyrir í byrjun septembermánaðar.