Tilkynningar

Minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar

20.4.2011

Í dag verður opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni á völdum handritum og skjölum Jóns Sigurðssonar um einkahagi, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku. Að verkefninu standa Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og skjalasafn Alþingis. Einnig verður opnaður aðgangur að stafrænum gögnum á vefnum http://www.jonsigurdsson.is.

Sýningin er hluti af tveggja alda minningarafmæli Jóns Sigurðssonar. Með þingsályktun sem Alþingi samþykkti í mars 2007 var forsætisráðherra falið að skipa nefnd til að undirbúa hvernig minnast ætti þess að 17. júní 2011 yrðu liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Nefndin hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum og sýningum vegna afmælisársins en viðamest er endurgerð Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð, breytingar á húsnæði þar og uppsetning nýrrar sýningar ásamt margmiðlunarefni. Upplýsingar um viðburði á minningarárinu er að finna á vefsíðunni jonsigurdsson.is.