Tilkynningar

Málverk af Halldóri Blöndal í Alþingishúsinu

24.8.2010

Í dag var afhjúpað í Alþingishúsinu málverk af Halldóri Blöndal, fyrrverandi forseta Alþingis, að viðstöddum forseta Alþingis, alþingismönnum, fjölskyldu Halldórs, fyrrum samþingmönnum og fleiri gestum.

Kristinn G. Jóhannsson listmálari málaði myndina og hefur henni verið komið fyrir í efrideildarsal.

Halldór Blöndal var forseti Alþingis 1999-2005. Hann sat á Alþingi samfellt í 28 ár, frá desember 1979 til vors 2007. Hann hafði áður setið á Alþingi sem varamaður, en sem slíkur settist hann fyrst á þing í byrjun desember 1971. Eftir veikindi Magnúsar Jónssonar frá Mel síðla árs 1973 tók Halldór fast sæti fram að þingrofinu í maí 1974. Halldór gegndi ráðherraembættum 1991-1999.