Tilkynningar

Stjórnlaganefnd valdi Guðrúnu Pétursdóttur formann

14.7.2010

Stjórnlaganefnd, sem kjörin var á Alþingi í júní, kom saman til fyrsta fundar 8. júlí og kaus Guðrúnu Pétursdóttur formann nefndarinnar. Aðrir í nefndinni eru Aðalheiður Ámundadóttir, Ágúst Þór Árnason, Björg Thorarensen, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon.

Stjórnlaganefnd er ætlað að undirbúa þjóðfund um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar á næsta ári. Stjórnlaganefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefndin mun starfa náið með undirbúningsnefnd stjórnlagaþings.