Tilkynningar

Hátíð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn

21.4.2010

Hátíð Jóns Sigurðssonar verður haldin í Jónshúsi í Kaupmannhöfn sumardaginn fyrsta, 22. apríl 2010, og verða Verðlaun Jóns Sigurðssonar afhent af því tilefni. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, flytur hátíðarræðu. Enn fremur verða flutt íslensk tónlistaratriði. Stjórn húss Jóns Sigurðssonar hefur umsjón með hátíðinni með fulltingi forseta Alþingis og forsætisnefndar.

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.

Forsætisnefnd Alþingis tekur ákvörðun um hvaða einstaklingur hlýtur verðlaunin á grundvelli tillögu úthlutunarnefndar fræðimannsíbúðar Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn.