Tilkynningar

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis afhent 12. apríl

9.4.2010

I. Afhending og dreifing

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 afhendir forseta Alþingis skýrslu sína mánudaginn 12. apríl kl. 10 í efrideildarsalnum í Alþingishúsinu. Varaforsetar þingsins og formenn þingflokka verða við afhendinguna. Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera viðstaddir.

Þegar forseta Alþingis hefur verið afhent prentað eintak af skýrslu rannsóknarnefndarinnar mun þingforseti opna fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis (http://rna.althingi.is). Vefútgáfan verður aðgengileg kl. 10.20. Vefútgáfu skýrslunnar er ætlað að vera aðalútgáfa skýrslunnar enda birtist þar efni sem ekki er í hinni prentuðu útgáfu, m.a. ensk þýðing á hluta skýrslunnar (http://sic.althingi.is), tölfræðilegt efni og bréfaskipti nefndarinnar og 12 einstaklinga sem veittur var andmælaréttur um atriði sem fram koma í skýrslunni. Prentaða útgáfan, sem er í allt um 2000 blaðsíður í 9 bindum, verður til sölu í bókaverslunum.

Eftir að forseti Alþingis hefur tekið við prentuðu eintaki skýrslunnar og opnað fyrir vefaðgang að henni verður hún afhent fulltrúum fjölmiðla í upphafi blaðamannafundar í Iðnó.

II. Blaðamannafundur rannsóknarnefndar Alþingis

Rannsóknarnefnd Alþingis heldur blaðamannafund í Iðnó mánudaginn 12. apríl kl. 10.30. Kynntar verða niðurstöður nefndarinnar um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Einnig verður gerð grein fyrir skýrslu vinnuhóps sem hafði það hlutverk að svara því hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði.

Vakin er athygli á því að sömu aðgangsreglur munu gilda um Iðnó og að Alþingishúsinu. Fulltrúum fjölmiðla ber því að framvísa auðkenniskorti með nafni fjölmiðils sem þeir starfa fyrir. Starfsmaður fjölmiðils sem ekki hefur slíkt auðkenniskort skal tilkynna fyrir blaðamannafundinn um komu sína á netfangið gulli@althingi.is og skal jafnframt framvísa persónuskilríkjum við innganginn.

III. Yfirlýsingar formanna stjórnmálaflokka á þingfundi og umræður um skýrsluna

Þingfundur hefst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 12. apríl. Þar munu formenn stjórnmálaflokkanna gefa yfirlýsingar í tilefni af birtingu skýrslunnar. Almenn umræða um skýrsluna hefst svo á þingfundi næsta dag, þriðjudaginn 13. apríl, kl. 1.30 miðdegis.