Tilkynningar

Könnun á ástæðum vantrausts fólks til Alþingis

21.8.2013

Forseti Alþingis kynnti á fréttamannafundi könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar og mars sl. fyrir skrifstofu Alþingis og einkum var ætlað að athuga hvaða ástæður búa að baki vantrausti til Alþingis eins og það hefur mælst í könnunum undanfarin ár. Niðurstaða skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ er að vantraustið beinist að litlu leyti að Alþingi sem stofnun. Vantraustið beinist aðallega að þremur þáttum er lúta að starfsháttum á Alþingi. Fram kemur að Alþingi þurfi að taka á þeim atriðum til að auka traust fólks til þingsins.

I. Meginástæður fyrir vantrausti fólks til Alþingis.

 1. Samskiptamáti og framkoma þingmanna.
  79% svarenda sögðu að vantraust þeirra beindist að samskiptamáta þingmanna. Ljóst er af greiningu á umræðum í rýnihópum og opnum svörum að verið er að vísa til þess að þingmenn sýni hver öðrum virðingarleysi og standi í sífelldu óþarfa rifrildi og „skítkasti“ á kostnað málefnalegrar umræðu og samvinnu.
 2. Vinnulag á þingi.
  72% svarenda sögðu vantraust þeirra beinast að vinnulagi þingmanna. Af greiningu á umræðum í rýnihópum og opnum svörum má ráða að fólki þyki forgangsröðun á þingi röng og að þingmenn hlusti ekki á almenning og séu þar af leiðandi ekki í nægilegum tengslum við fólkið í landinu. Þá þykir vinnulag á þingi einnig einkennast af aðgerða- og getuleysi þingmanna til að fylgja málum eftir og klára.
 3. Ómálefnaleg umræða á þingi.
  Í
   svörum við opnum spurningum um ástæður vantrausts var áberandi að fólki þótti umræða á Alþingi ómálefnaleg. Vísað var m.a. til þess að mikið væri um málþóf á Alþingi og að umræður væru ómarkvissar og sundurlausar.

II. Helstu tölur varðandi traust og vantraust.

 1. 14% svarenda sögðust bera traust til Alþingis. Rétt rúmlega 12% báru frekar mikið traust til Alþingis en tæp 2% báru mjög mikið eða fullkomið traust til Alþingis.
 2. 76% svarenda sögðust bera lítið eða alls ekkert traust til Alþingis. Rúmur þriðjungur (37%) sagðist bera frekar lítið traust til þess. Fjórðungur (23%) bar mjög lítið traust til þess og 16% báru alls ekkert traust til þess.
 3. 10% svarenda sögðust hvorki bera mikið né lítið traust til Alþingis.

III. Framkvæmd könnunarinnar.

Spurningar varðandi traust til Alþingis voru lagðar fyrir tilviljunarúrtak í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar og jafnframt fóru fram umræður í tveimur rýnihópum meðal fólks sem treystir Alþingi lítið.

Úrtak í könnuninni var með eftirfarandi hætti:
Tekið var 1.200 manna einfalt tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Hringt var í þá sem lentu í úrtaki og þeir beðnir að svara spurningum könnunarinnar. Þá var tekið 1.200 manna lagskipt tilviljunarúrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Netpanell Félagsvísindastofnunar samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum Félagsvísindastofnunar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá.

Úrtakið var lagskipt eftir kyni, aldri og búsetu til þess að það endurspeglaði sem best samsetningu landsmanna. Gagnaöflun hófst 19. febrúar 2013 og lauk 4. mars 2013. Alls svöruðu 1283 og er svarhlutfall 55%.