Tilkynningar

Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur handhafi Verðlauna Jóns Sigurðssonar árið 2009

23.4.2009

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin öðru sinni í Jónshúsi í Kaupmannhöfn í dag, sumardaginn fyrsta. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á lofti verkum hans og hugsjónum. Stjórn húss Jóns Sigurðssonar hefur frumkvæði að hátíðinni með fulltingi forseta Alþingis og forsætisnefndar.

Dr. Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, hélt hátíðarræðu um fræðasamvinnu Dana og Íslendinga, einkum á sviði íslenskra fræða.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta, fyrir hönd forseta Alþingis.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta eru veitt af Alþingi í minningu starfa Jóns Sigurðssonar í þágu Íslands og Íslendinga. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi sem hefur unnið verk sem tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála. Árið 2009 nemur verðlaunafjárhæðin 25.000 dönskum krónum.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2009 hlýtur Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur. Hann hefur verið ötull þýðandi íslenskra samtímabókmennta og hlotið mikið lof fyrir. Hann hefur meðal annars þýtt skáldverk Einars Más Guðmundssonar, Fríðu Á. Sigurðardóttur og Thors Vilhjálmssonar, en verk þeirra allra hafa hafa hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Nýverið þýddi Erik Skyum-Nielsen verk Auðar Ólafsdóttur, sem hefur verið tilnefnt til sömu verðlauna. Erik Skyum-Nielsen hefur stundað rannsóknir á íslenskum bókmenntum og fjallað um þær í fjölmiðlum, fræðiritum og á vísindaráðstefnum, bæði innan Danmerkur og utan. Hann hefur því með störfum sínum lagt drjúgan skerf til íslenskrar menningar. Hann var sæmdur fálkaorðunni fyrir störf að þýðingum á íslenskum bókmenntum á dönsku og kynningu íslenskra bókmennta í Danmörku 1. nóvember 2001.

Það var einróma mat úthlutunarnefndar að Erik Skyum-Nielsen væri afar vel að þessum verðlaunum kominn, jafnt sem virtur fræðimaður og þýðandi með góð tengsl við Ísland sem ötull talsmaður íslenskrar menningar á Norðurlöndum.