Tilkynningar

Hátíð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn

22.4.2009

Hátíð Jóns Sigurðssonar verður haldin öðru sinni í Jónshúsi í Kaupmannhöfn á sumardaginn fyrsta, 23. apríl 2009, og verða Verðlaun Jóns Sigurðssonar afhent af því tilefni. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum.

Dr. Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, heldur hátíðarræðu og Íslenski kvennakórinn í Kaupmannahöfn flytur nokkur lög. Stjórn húss Jóns Sigurðssonar hefur frumkvæði að hátíðinni með fulltingi forseta Alþingis og forsætisnefndar.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta eru veitt af Alþingi í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni sá einstaklingur sem hefur unnið verk sem tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.

Forsætisnefnd Alþingis tekur ákvörðun um hvaða einstaklingur hlýtur verðlaunin á grundvelli tillögu úthlutunarnefndar fræðimannsíbúðar Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn.