Tilkynningar

Skrifstofa umboðsmanns Alþingis flutt í Þórshamar - 25 ár frá opnun skrifstofunnar

11.7.2013

Forseti Alþingis afhenti umboðsmanni Alþingis húsið Þórshamar við Templarasund 5 í Reykjavík til afnota fyrir skrifstofur embættisins 11. júlí en þá voru 25 ár liðin frá því skrifstofa umboðsmanns Alþingis var opnuð.

Embætti umboðsmanns

Embætti umboðsmanns Alþingis var stofnað með lögum sem voru samþykkt á Alþingi vorið 1987. Gaukur Jörundsson var kjörinn umboðsmaður í desember það ár og hóf þá undirbúning opnunar skrifstofu embættisins. Hún var formlega opnuð 11. júlí 1988 að Rauðarárstíg 27 í Reykjavík. Skrifstofan var síðar flutt í Lágmúla og þaðan í Álftamýri. Fyrir nokkrum árum ákvað forsætisnefnd Alþingis að stefnt yrði að flutningi á skrifstofum umboðsmanns í Þórshamar.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.

Á þeim 25 árum sem umboðsmaður Alþingis hefur starfað hafa verið skráð alls 7.548 mál hjá honum eða að meðaltali um 300 mál á ári. Flest urðu málin hins vegar á árinu 2012, eða 536. Af skráðum málum hafa um 65% þeirra verið tekin til efnislegrar athugunar en önnur hafa ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að umboðsmaður hafi getað fjallað um þau. Af þeim málum sem umboðsmaður hefur tekið til efnislegrar athugunar hafa um 32% verið felld niður að lokinni frumathugun, um 46% hafa verið felld niður að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds. Alls hefur umboðsmaður lokið 1.010 málum með áliti, þ.e. um 22% þeirra mála sem hafa komið til efnislegrar athugunar en 14% þegar miðað er við heildarfjölda þeirra mála sem umboðsmanni hafa borist.

Kjörnir umboðsmenn Alþingis hafa verið tveir, Gaukur Jörundsson á árunum 1988-1998 og Tryggvi Gunnarsson frá árinu 1998. Um þessar mundir er Róbert R. Spanó settur umboðsmaður samhliða kjörnum umboðsmanni sem vinnur að sérstöku verkefni á vegum embættisins. Fastir starfsmenn umboðsmanns nú eru tíu.

Þórshamar, Templarasund 5, 1912-2013

Templarasund dregur nafn sitt af Góðtemplarahúsinu, Gúttó, sem Góðtemplarar reistu sem samkomuhús vestanmegin við götuna árið 1887 á uppfyllingu sem gerð hafði verið í norðurenda Tjarnarinnar þar sem nú er bílastæði og innkeyrsla í bílakjallara Alþingis. Húsið byggði Sigurjón Sigurðsson trésmiður, sem byggði einnig Vonarstræti 8 og bjó þar, en það var teiknað af Jóni H. Ísleifssyni verkfræðingi. Guðjón Gamalíelsson múrarameistari var verkstjóri við byggingu hússins en hann var verkstjóri við margar þekktar byggingar, s.s. Safnahúsið, Vífilsstaði og Landspítalann.

Þórshamar er eitt af fyrstu steinsteyptu húsunum í Reykjavík og sennilega stærsta og veglegasta íbúðarhús úr steinsteypu sem reist hafði verið á þessum tíma. Húsið er þrílyft með kjallara, porti, risi og kvistsettu valmaþaki og tannstöfum í klassískum stíl undir þakskeggi. Inngangur í húsið er í sérstöku stigahúsi eða útbyggingu við norðurenda þess. Sú bygging er þrílyft, með kjallara og risi. Á tveimur efri hæðum þessarar útbyggingar voru upprunalega opnar svalir sem sneru að götu en þeim var snemma lokað. Við austurhlið hússins hefur einnig frá upphafi verið þriggja hæða inn- og uppgönguskúr með kjallara og risi. Í upphafi steinsteypualdar voru stórhýsi sem þessi einkum byggð að fyrirmynd evrópskra múrsteinshúsa í nýklassískum stíl og voru ýmis klassísk einkenni og áhrif síðan áberandi í gerð steinsteypuhúsa hér á landi allt fram á fjórða áratug 20. aldar. Sú húsagerð sem af þessu mótaðist hefur verið kennd við nýklassík eða kölluð steinsteypuklassík. Sama ár og húsið var byggt fékk Sigurjón leyfi til að gera steyptan vegg meðfram suðvesturhorni lóðarinnar og er það líklega sá veggur sem enn stendur þar. Húsinu hefur lítið sem ekkert verið breytt frá því að svölunum var lokað en árið 1983 var skúr á baklóðinni rifinn. Þórshamar fellur undir verndun 20. aldar bygginga, sbr. lög um húsafriðun nr. 104/2001 (grænn flokkur). Það hefur listrænt og menningarsögulegt gildi sem eitt af elstu steinsteyptu stórhýsum Reykjavíkur og það hefur einnig umhverfisgildi sem hluti af umgjörð Tjarnarinnar.

Í húsinu voru upphaflega þrjár íbúðir, ein á hverri hæð, og herbergi í risi. Bjó Sigurjón sjálfur í húsinu fyrstu árin en árið 1917 seldi Sigurjón húsið Þorsteini Þorsteinssyni skipstjóra og var það í eigu fjölskyldu Þorsteins allt til ársins 1978. Alþingi hafði húsið, a.m.k. hluta þess, á leigu frá 1967 en árið 1978 keypti ríkissjóður það. Þar voru fyrst skrifstofur þingmanna og fundarsalir alþingisnefnda en síðar bókasafn, upplýsinga- og rannsóknarþjónusta og tölvudeild Alþingis.

2013 tók umboðsmaður Alþingis við Þórshamri. Í tilefni af flutningi skrifstofu umboðsmanns Alþingis í húsið hafa verið gerðar endurbætur á því að innan sem hafa miðað að því að færa útlit hússins til samræmis við byggingartíma þess. Enn er unnið að því að bæta aðgengi að húsinu fyrir þá sem ekki geta farið um tröppur á framhlið þess.