Tilkynningar

Opnir fundir fastanefnda með ráðherrum 7.-16. október

5.10.2008

Opnir fundir fastanefnda með ráðherrum verða haldnir dagana 7.–16. október nk. í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10. Fulltrúar fjölmiðla eiga þess kost að fylgjast með opnum fundi.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. þingskapa skulu ráðherrar að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda er fjalla um málaflokka þeirra og gera grein fyrir þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fram á löggjafarþinginu.

Forseti Alþingis hefur óskað eftir því að fundir ráðherra með nefndum samkvæmt þessu ákvæði þingskapa verði opnir nefndafundir.

Bráðabirgðareglur um opna fundi fastanefnda Alþingis voru settar af forsætisnefnd 3. júní sl. Samkvæmt þeim getur fastanefnd haldið opinn fund í því skyni að afla sér upplýsinga um þingmál sem vísað hefur verið til hennar eða um mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði. Fastanefnd getur óskað eftir því að ráðherrar, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana og fulltrúar hagsmunaaðila er mál varða komi á opna fundi og veiti nefndinni upplýsingar.

Í reglunum er gert ráð fyrir að fjölmiðlar skuli eiga þess kost að láta fulltrúa sína fylgjast með opnum fundi. Þá er ljósvakamiðlum heimilt að hafa beinar útsendingar.

Fundirnir verða sendir beint út á vef Alþingis og verða einnig aðgengilegir sem hljóð- og myndupptökur að fundum loknum. Fundirnir verða einnig sendir út á sjónvarpsrás Alþingis og í ríkissjónvarpinu. Skrifstofa Alþingis er tilbúin að aðstoða fjölmiðla við að nálgast upptökur af opnum nefndafundum ef þess gerist þörf.

Fundirnir verða haldnir í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10, 2. hæð. Nánari tímasetning fundanna sést undir Þingyfirlit á forsíðu vefs Alþingis.

Frekari upplýsingar veitir Sigrún Brynja Einarsdóttir, forstöðumaður nefndasviðs, í síma 563 0500.