Tilkynningar

Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2008

9.9.2008

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut í morgun barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2008 fyrir skáldsöguna Draugaslóð. Verðlaunin sem nema um milljón íslenskra króna voru veitt við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að bókin sé kærkomin fyrir unglinga á öllum aldri, sagan sé full af mótsetningum þar sem draumur og veruleiki skarist áþreifanlega en samspil þeirra hjálpar til við að leysa leyndardóminn í bókinni. Dómnefndin leggur jafnframt áherslu á að bókin taki fyrir hversdagsleg málefni, svo sem vanda einstæðra foreldra og barna þeirra.

Dómnefndin er einkar hrifin af því hvernig Kristín Helga Gunnarsdóttir fléttar íslenskan þjóðsagnaarf fimlega inn í söguna, grefur djúpt í gamlar sagnir og skapar skáldsögu sem styðst við sagnirnar og þá staði sem sögurnar eru tengdar. Draugaslóð er auðug saga af líflegum og sterkum persónum sem lesendur trúa á, stíllinn leikandi og fagmannlegur, tilgerðarlaus en þó ávallt fallegur.

Þetta er í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt en þeim er úthlutað annað hvert ár. Dómnefnd barnabókaverðlaunanna skipaði Oddfríður Marni Rasmussen frá Færeyjum, Vera Lise Rosing Olsen frá Grænlandi og Silja Aðalsteinsdóttir frá Íslandi.

Auk Draugaslóðar voru barnabækurnar Apollonia frá Færeyjum eftir Edward Fuglø og Abct frá Grænlandi eftir Julie Edel Hardenberg tilnefndar.

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur og árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin, en hún er komin út í íslenskri þýðingu.