Tilkynningar

Fundur í forsætisnefnd 28. ágúst

27.8.2007

Forsætisnefnd Alþingis kemur saman til fundar þriðjudaginn 28. ágúst nk. til að undirbúa störf Alþingis á hausti komanda. Forsætisnefnd heldur sumarfund utan Reykjavíkur yfirleitt í ágúst ár hvert og að þessu sinni verður hann í Stykkishólmi. Á fundinum er m.a. fjallað um starfsáætlun Alþingis fyrir komandi þing, farið yfir rekstur þingsins og fjárlagatillögur, fjallað um erindi sem fyrir nefndinni liggja auk þess sem rætt er um ýmsa þætti í starfsemi þingsins. Þá er einnig venja að fjalla á þessum fundi um málefni stofnana Alþingis, þ.e. Ríkisendurskoðunar, embættis umboðsmanns Alþingis og Jónshúss í Kaupmannahöfn.
Að venju sitja þennan fund forsætisnefndar forseti Alþingis, varaforsetar Alþingis, skrifstofustjóri Alþingis og varaskrifstofustjórar, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi eða fulltrúar þeirra.