Tilkynningar

Um ritun bókar um þingræðisregluna og sögu hennar í 100 ár

20.12.2005

FRÉTTATILKYNNING
frá forseta Alþingis
Um ritun bókar um þingræðisregluna og sögu hennar í 100 ár

Þorsteinn Pálsson hefur ritað forseta Alþingis bréf, dags. 8. des. sl., þar sem hann biðst undan að taka að sér að verða ritstjóri bókar um þingræðisregluna og sögu hennar frá 1904.

Þorsteinn segir í bréfi sínu að það hafi verið forsenda af hans hálfu fyrir því að hann tæki þetta verk að sér að slík ákvörðun yrði ágreiningslaus, enda í samræmi við eðli viðfangsefnisins.

Í bréfi Þorsteins segir síðan:
„Samhljóða samþykkt forsætisnefndar Alþingis var tekin til umræðu utan dagskrár á Alþingi 20. október sl. Þar kom í ljós að einhugur forsætisnefndar endurspeglaðist ekki á Alþingi sjálfu. Umræðan varpaði þeim skugga á ákvörðun forsætisnefndarinnar að forsendur voru þar með brostnar fyrir því að ég ætti þar hlut að máli í samræmi við það sem fyrir lá af minni hálfu þegar málaleitan Alþingis var borin fram.“

Á fundi forsætisnefndar í gær, 19. desember, var m.a. fjallað um bréf Þorsteins Pálssonar og eftirfarandi m.a. bókað um málið:

„Forsætisnefnd samþykkir, í framhaldi af bréfi Þorsteins Pálssonar, að fela ritnefnd að gera tillögu um hvernig staðið verði að ritun bókar um þingræði á Íslandi í 100 ár.

Jafnframt ítrekar forsætisnefnd fyrri samþykkt frá 23. sept. sl. um að ritnefndin geri kostnaðar- og tímaáætlun fyrir verkið áður en það hefst.

Efnistök miðist við að bókin verði heildstætt verk, gerð verði rækileg grein fyrir uppruna, eðli og inntaki þingræðisreglunnar, sögu hennar og þróun á Íslandi, fjallað verði um framkvæmd reglunnar í stjórnmálasögu síðustu 100 ára og jafnframt verði könnuð staða hennar að því er varðar séríslensk einkenni stjórnskipunar og stjórnarhátta, myndunar ríkisstjórna o.fl.

Forsætisnefnd ætlar ritnefndinni að leggja sjálfri fram skerf til ritunar bókarinnar, en hvetur jafnframt til þess að ritnefnd kanni áhuga annarra fræðimanna til að skrifa um nánar tiltekin atriði um þingræðisregluna, sögu hennar og framkvæmd.

Forsætisnefnd samþykkir að ritstjórn verði þriggja manna og felur forseta að skipa þriðja manninn sem hafi menntun í stjórnmálafræði.“

Forseti hefur ákveðið að dr. Þorsteinn Magnússon stjórnmálafræðingur, forstöðumaður á skrifstofu Alþingis, verði skipaður í ritnefndina, en áður höfðu verið valin í hana dr. Ragnhildur Helgadóttir, lektor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, og Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði við Kennaraháskóla Íslands.