Tilkynningar

Undirbúningsfundur hundrað ára afmælis kosningaréttar kvenna

17.9.2013

Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, hélt síðstliðinn laugardag fund með fulltrúum samtaka íslenskra kvenna, stofnana sem sinna jafnréttismálum og þingflokka sem eiga sæti á Alþingi, í Víkinni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, en til fundarins var boðað samvæmt ályktun Alþingis til að ræða almennt um hvernig best sé að minnast 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna. Þá var það verkefni fundarins að kjósa fimm manna framkvæmdanefnd sem móti endanlegar tillögur og annist frekari undirbúning fyrir afmælisárið 2015.

Í framkvæmdanefndina voru kjörin Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður og formaður Kvenréttindafélags Íslands, Kolbrún Halldórsdóttir formaður Bandalags íslenskra listamanna og fyrrverandi alþingismaður, Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Varamenn voru kjörnir Drífa Hjartardóttir sveitarstjóri og fyrrverandi alþingismaður, Erla Karlsdóttir doktorsnemi í heimspeki og Ingimar Karl Helgason fréttamaður. Forsætisnefnd Alþingis mun síðan ganga frá ráðningu framkvæmdastjóra til að starfa með nefndinni.